Kynningarherferð vegna Leiguheimila

mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Íbúðalánasjóður hefur hrint af stað kynningarherferð í tengslum við nýtt húsnæðiskerfi, svonefnd Leiguheimili, þar sem langtímaleiga er tryggð og greiðslur verða mun lægri en á almennum markaði.

Í tilkynningu frá Íbúðalánasjóði kemur fram að tilgangurinn með herferðinni sé tvíþættur. Annars vegar að kortleggja þörfina með því að biðja fólk um að fylla út hvar það vill búa og hversu stórt húsnæði það þarf á að halda og hins vegar að komast í beint samband við þann hóp sem Leiguheimilin geta hentað.

Uppbygging Leiguheimilanna hefst fljótlega og sendar verða reglulegar fréttir á þá sem skrá sig á póstlista um ný byggingarverkefni og umsóknarfresti fyrir húsnæðið.

Miðpunktur herferðarinnar er nýr upplýsingavefur, leiguheimili.ils.is, en þar er algengum spurningum um Leiguheimili svarað, tekið er við skráningum á póstlista og fólk beðið um að svara nokkrum spurningum um húsnæðisþarfir sínar. Upplýsingarnar eru meðal þeirra gagna sem litið verður til þegar ákvörðun er tekin um úthlutun stofnframlaga.

14 aðilar hafa sótt um tæplega 3,8 milljarða króna í stofnframlög úr ríkissjóði til að byggja eða kaupa 571 hagkvæma íbúð, svonefnd Leiguheimili, á 28 stöðum víða um land í 17 ólíkum sveitarfélögum, samkvæmt tilkynningunni.

Frétt mbl.is: 14 vilja byggja tæp 600 leiguheimili

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert