Morgunblaðið verðlaunað fyrir loftslagsumfjöllun

Utanríkisráðherra afhenti fulltrúum Morgunblaðsins og Bændablaðsins verðlaunin.
Utanríkisráðherra afhenti fulltrúum Morgunblaðsins og Bændablaðsins verðlaunin. mbl.is/Eggert

Fjölmiðlar gegna lykilhlutverki í því að veita stjórnvöldum aðhald í loftslagsmálum með því að spyrja spurninga og taka til umfjöllunar þennan mikilvæga málaflokk. Greining sem Creditinfo vann fyrir baráttuhópinn París 1,5° sýnir svart á hvítu að lítið er fjallað um þetta brýna mál og betur má ef duga skal, en innan við hálft prósent allra frétta sem birtar eru hér á landi fjalla um málið.

París 1,5° er baráttuhópur um að Ísland geri sitt til að halda hlýnun jarðar innan við 1,5°C og veitti hópurinn nú í morgun Morgunblaðinu og Bændablaðinu verðlaun sem þeim fjölmiðlum sem staðið hafa sig hvað best í umfjöllun um loftslagsmál.

Hópurinn kynnti úttekt Creditinfo, sem sýnir að af tæplega 200.000 fréttum sem Creditinfo vaktaði á tímabilinu 1. janúar til 14. október fjölluðu rúmlega 800 um loftslagsmál, sem er 0,42% af öllum vöktuðum fréttum.

Þegar skoðaður var samanburður við aðra umfjöllun kom í ljós að rúmlega 3.000 fréttir voru birtar um Landspítalann á tímabilinu, hátt í 2.000 um alþingiskosningar og yfir 1.000 um álver og stóriðju. Fréttir um loftslagsmál á tímabilinu voru hins vegar álíka margar og fréttir um Eurovision söngvakeppnina.

Er fjöldi frétta um umhverfismál var skoðaður eftir fjölmiðlum kom í ljós að 125 þeirra höfðu verið birtar í Morgunblaðinu, 120 fréttir voru birtar á mbl.is, 88 á Fréttablaðinu, 60 á visir.is, 44 á fréttavef RÚV, 38 í Kjarnanum og 28 í Ríkissjónvarpinu. Bændablaðið stendur sig hins vegar hlutfallslega best allra fjölmiðla því 3,2% allra frétta blaðsins fjalla um loftslagsmál. 

Tikkandi tímasprengja

Nokkur munur var á umfjöllun um loftslagsmál eftir mánuðum og þannig var umfjöllunin mest á tímabilinu mars-apríl og í september en datt svo nokkuð niður yfir sumarmánuðina. 

„Það er ekkert mál sem kemst í hálfkvist við loftslagsmál hvað varðar mikilvægi. Þetta er  tikkandi tímasprengja og það þarf að eiga sér stað bylting,“ sagði Eyþór Eðvarðsson sem er meðal félaga í París 1,5°.

„Okkar tilfinning er sú að fjölmiðlar hafi ekki verið nógu duglegir að krefja stjórnmálamenn svara um framkvæmd eftir að skrifað var undir Parísarsáttmálann,“ segir hann og nefnir sem dæmi að í sjónvarpskappræðum hafi enginn stjórnmálaleiðtogi verið spurður út í loftslagsmál fyrir komandi kosningar.

„Eftirfylgni skiptir höfuðmáli, ég finn að það skiptir máli t.d. á krökkunum mínum þegar það er strax byrjað að kenna börnum um hvað málið snýst,“ sagði Lilja Dögg Alfreðsdóttir utanríkisráðherra sem veitti fjölmiðlum verðlaun fyrir umfjöllun sína.

„Ég finn það að loftslagsmálin hafi mikinn meðbyr núna, þó umfjöllunin um þau sé ef til vill ekki jafn mikil og við mundum vilja.“

Hún kvaðst vera þakklát fyrir að hafa öfluga talsmenn fyrir loftslagsmálin og miklu máli skipti að sóknaráætlun stjórnvalda væri tilbúinn, sem og áætlun um hvernig henni verður fylgt eftir.

„Það er mikill meðbyr með umræðunni og alvarleika málsins. Það vilja allir koma að því að við getum uppfyllt þessar skuldbindingar okkar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert