„Nánast sumarveður upp á hvern dag“

Skjaldþingsstaðir í Vopnafirði hafa verið áberandi í veðurfréttunum á þessu hausti. Þar er veðurstöð og dag eftir dag hefur hún státað af hæsta hitastigi á landinu.

Í gær komst hitinn í tæpar 18 gráður og 16 gráður í fyrradag. Og þótt fyrsti vetrardagur sé á morgun, laugardag, er engan vetur að sjá í kortunum.

Skjaldþingsstaðir eru í botni Vopnafjarðar og í sunnanáttum blæs þurr vindur niður af fjöllunum, hnjúkaþeyr myndast og hitinn magnast.

Refsstaður er nágrannabær Skjaldþingsstaða og þar ræður ríkjum hin þjóðþekkta Ágústa Þorkelsdóttir. „Haustið hefur verið með eindæmum gott. Ég hef búið hérna í 46 ár og man ekki eftir öðru eins. Það hefur nánast verið sumarveður upp á hvern dag,“ segir Ágústa í umfjöllun um veðurblíðuna eystra í Morgunblaðinu í dag.

„Það er sólskin núna og þætti ljómandi fallegt veður að sumarlagi en það er dálítið hvasst. Sunnanáttin getur verið alveg svakaleg þegar hún kemur héðan af Skörðunum, fjöllunum milli Héraðs og Vopnafjarðar. Þetta er oft engu líkt en þeir sem eru fæddir hérna eru vanir þessu og tala um hlaupandi logn,“ segir Ágústa.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert