Börnin tóku vel á móti bangsanum Blæ

Börnin voru ánægð með bangsann.
Börnin voru ánægð með bangsann. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Það mátti vart á milli sjá hvort leikskólabörnin hafi verið hrifnari af bangsanum Blæ eða þyrlu Landhelgisgæslunnar sem afhenti börnunum bangsana á Vífilsstaðatúni í morgun. Bangsinn Blær kemur frá Ástralíu og er táknmynd Vináttu, forvarnarverkefnis Barnaheilla gegn einelti. Leikskólarnir Hæðarból, Krakkakot og Sunnuhvoll í Garðabæ taka þátt í verkefninu og voru mætt á Vífilsstaðatún til að taka á móti bangsanum sem ætlar að hjálpa þeim að vera vinir.

„Þetta var rosalega gaman og heilmikil upplifunin fyrir börnin að fá bangsana afhenta með þessum hætti,“ segir Erna Reynisdóttir framkvæmdastjóri Barnaheilla á Íslandi.  

Vináttuverkefnið er danskt að uppruna og byggir á nýjustu rannsóknum á einelti. Á Íslandi var verkefninu formlega ýtt úr vör í byrjun ársins og nú hafa um 20% leikskóla landsins tekið það til notkunar. Í Vináttu er litið svo á að einelti sé ekki einstaklingsbundið vandamál, heldur félagslegt, menningarlegt og samskiptalegt mein sem þróast þar sem umburðarlyndi skortir gagnvart margbreytileikanum og þar sem mjög ósveigjanleg viðmið eru um hvað sé „rétt“ eða „rangt“.

Í vináttuverkefninu er lögð áhersla á styrkleika hvers einstaklings, menninguna í hópnum, samkennd og margbreytileika. Verkefnið vinnur að góðum skólabrag með gildunum umburðarlyndi, virðingu, umhyggju og hugrekki. Erna segir að verkefninu hafi verið mjög vel tekið á leikskólunum og greinilega kærkomið verkefni sem gefur leikskólakennurum tækifæri til að efla vináttu í skólum sínum.

„Við höfum trú á þessu verkefni. Við erum með þann stóra draum að útrýma einelti á Íslandi. Það þýðir ekki að vera með minni draum en það, “ segir Erna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert