Einn í móðursýkiskasti, annar heyrnarlaus

Kveikt var í bílflökum til að líkja eftir neyðarástandi eftir …
Kveikt var í bílflökum til að líkja eftir neyðarástandi eftir brotlendingu. mbl.is/Líney Sigurðardóttir

Aðstæður voru með besta móti þegar flugslysaæfing fór fram við Þórshafnarflugvöll um hádegisbilið í dag. Æfingin fór fram í 15 stiga hita, logni og heppnaðist vel að sögn Guðna Sigurðssonar, upplýsingarfulltrúa Isavia. 

Flugslysaæfingar eru framkvæmdar á fjögurra ára fresti á hverjum áætlunarflugvelli og er ætlað að slípa samstarf allra viðbragðsaðila. Nýverið var haldin stór æfing á Reykjavíkurflugvelli en á minni flugvöllum fer umfangið eftir væntri stærð flugvélar og fjölda farþega. Í dag var gert ráð fyrir 26 farþegum, þar af voru tuttugu leikarar og sex brúður. 

Æfingin fór fram við kjöraðstæður við Þórshafnarflugvöll.
Æfingin fór fram við kjöraðstæður við Þórshafnarflugvöll. mbl.is/Líney Sigurðardóttir

Leikarar í mismunandi hlutverkum

Að æfingunni kemur starfsfólk flugvallar, slökkvilið, björgunarsveitir, Rauði krossinn, sjúkraflutningafólk ásamt fleiri aðilum en í heildina tóku um 40-50 manns þátt. Leikararnir tuttugu fengu mismunandi hlutverk úthlutuð til að gera aðstæður sem raunverulegastar. 

„Hver sjúklingur hefur ákveðið hlutverk. Einn er til dæmis í móðursýkiskasti, öskrandi og hlustar ekki á neitt. Annar hefur verið nálægt sprengingu, heyrir ekkert og er að reyna að útskýra einkenni sín. Þeir sem kom á svæðið vita ekki fyrirfram hvert ástand sjúklinganna er,“ sagði Guðni í samtali við mbl.is. 

Æfingin fer þannig fram að bílflök eru notuð til að líkja eftir flugvélarskrokki og eru á víð og dreif á vettvanginum. Í sumum eru sjúklingar sem bjarga þarf af vettvangi en kveikt er í öðrum. Æfingin er ekki aðeins til að skerpa á viðbragðáætlun við flugslysi heldur hvers kyns neyðarástandi sem gæti komið upp.

„Í raun er þetta almannavarnaæfing og skiptir miklu máli til að slípa almannavarnakerfi á Íslandi. Nákvæmlega sama kerfi fer til dæmis í gang ef rúta veltur,“ sagði Guðni.   

mbl.is/Líney Sigurðardóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert