Úreltar hugmyndir um kynhlutverk

Ugla og Fox Fisher.
Ugla og Fox Fisher. Ljósmynd/Facebook

„Þetta verkefni átti að gefa fólki smá innsýn inn í líf transfólks og þeirrar upplifunar af heilbrigðiskerfinu þegar kemur að einhverskonar kynleiðréttingarferli eða ferli sem transmanneskja inni í heilbrigðiskerfinu.“

Þetta segir Ugla Stef­an­ía Kristjönu­dótt­ir Jóns­dótt­ir í samtali við mbl.is en félagið Trans-Ísland gerði myndband um vankanta í íslensku heilbrigðiskerfi. „Mikið af transfólki hefur komið til félagsins með allskonar mál er varða heilbrigðiskerfið og hafa kvartað yfir því hvernig heilbrigðiskerfið hefur tekið á þeim.“

Maki Uglu, Fox Fisher, leikstýrði myndskeiði þar sem transfólk lýsir reynslu sinni af heilbrigðiskerfinu. Fjallað var um málið fyrir helgi í Háskóla Íslands, eins og kemur fram í frétt á GayIceland.

Ugla segir lög á Íslandi úrelt í alþjóðlegu samhengi. „Þar má helst nefna að á Íslandi er enn stuðst við sjúkdómsgreiningu á svokölluðum kynáttunarvanda. Það er skilyrði fyrir því að þú fáir einhverja meðferð að þú hljótir greiningu á kynáttunarvanda,“ sagði Una en það er ekki í takt við alþjóðlega þróun þegar kemur að heilbrigðisþjónustu og réttindum transfólks.

„Sömuleiðis eru lögin rosalega kynbundin; bundin við það að fólk upplifi sig sem karla eða konur. Það er ekki allt transfólk sem upplifir sig 100% inni í þessum hlutverkum,“ en Ugla benti á að það feli í sér úreltar hugmyndir um hlutverk, hegðun og útlit karla og kvenna:

Við getum öll ímyndað okkur úreltar hugmyndir um föt og hegðun. Þetta eru svolítið svona hugmyndir frá 1950 um hlutverk karla og kvenna. Það á rosalega lítið við í dag í okkar samfélagi.“

Einnig sé talsvert af transfólki sem upplifi sig sem kynsegin; fólk sem skilgreinir sig ekki sem karl eða konu. Sá hluti fólks þurfi alltaf að setja upp leikrit þegar það sæki heilbrigðisþjónustu:

Það er mikið af transfólki sem töluðu til að mynda um það í þessu myndbandi að þau hefðu þurft að setja upp ákveðið hlutverk og leika ákveðna persónu til að fá heilbrigðisþjónustu sem þau þurftu. Þess á milli voru þau þau sjálf með vinum sínum. Þurftu að leika hina fullkomnu konu eða fullkominn karl og klæða sig og hegða sér í samræmi við það. Það eru helstu dæmin um að kerfið á Íslandi er rosalega úrelt.

Myndskeiðið má sjá hér að neðan:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert