Eitt gull og eitt silfur í hálfleik

Íslenska kokkalandsliðið á verðlaunapalli á Ólympíuleikunum í matreiðslu sem stendur …
Íslenska kokkalandsliðið á verðlaunapalli á Ólympíuleikunum í matreiðslu sem stendur yfir í Þýskalandi. Liðið fékk í dag ein gull- og ein silfurverðlaun. Ljósmynd/aðsend

Kalt hlaðborð íslenska kokkalandsliðsins fékk góða dóma á Ólymp­íu­leik­un­um í mat­reiðslu sem nú standa yfir í Erf­urt í Þýskalandi. Keppnin er nú hálfnuð og hlaut liðið í dag gull í einum flokki og silfur í öðrum fyrir kalda borðið.

Frétt mbl.is: Íslenskt hráefni alla leið

„Eins og maður sér hálfleiksstöður erum við komin með gull og silfur í kaldaborðinu,“ segir Þrá­inn Freyr Vig­fús­son, fag­leg­ur fram­kvæmda­stjóri kokkalandsliðsins, í samtali við mbl.is. „En það er 50% eftir af keppninni þannig að við erum alla vega vongóð, við erum ennþá inni í spilinu,“ útskýrir Þráinn.

Spenna fram á miðvikudag

Þó gull og silfur kunni að hljóma afar vel í fyrstu er stigagjöfin þó nokkru flóknari þegar betur er að gáð. Fleiri en eitt lið geta fengið gull, silfur eða brons í hverjum flokki en stigagjöfin virkar þannig að þau lið sem fá yfir 90 stig í hverjum flokki fyrir sig fá gull, þau sem fá 80-90 stig fá silfur og þau lið sem fá 70-80 stig fá brons. 

Þannig er enn á huldu hversu mörg stig nákvæmlega hvert lið hlýtur en á miðvikudag, að öllum keppnisgreinum loknum, verður tilkynnt um nákvæman stigafjölda og hvaða lið mun sigra Ólympíugullið í matreiðslu. Íslenska liðið fékk gull í flokki eftirrétta, sykurstykkja og konfekts og annars sætmetis en silfur fyrir matinn; forrétti, pinnamat, fiskifat og fleira í þeim dúr.

„Við vitum ekki hvar stigin okkar eru,“ segir Þráinn en ljóst sé þó að liðið er ennþá í baráttunni. „Þannig að í heildina séð getur þetta endað hvernig sem er.“ 

Ljósmynd/Stefanía Ingvarsdóttir
Frá upp­setn­ingu kalda borðsins í morg­un á Ólymp­íu­leik­un­um í mat­reiðslu …
Frá upp­setn­ingu kalda borðsins í morg­un á Ólymp­íu­leik­un­um í mat­reiðslu í Erf­urt í Þýskalandi. Ljósmynd/Stefanía Ingvarsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert