Eldgos ekki „alslæm“

Matteo Meucci ítalskur fjallagarpur sem stefnir að því að fara …
Matteo Meucci ítalskur fjallagarpur sem stefnir að því að fara í 100 ísklifurferðir á einu ári. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég er ekki mikið fyrir partí en mig langaði að halda upp á afmæli mitt með mínum hætti. Mig langaði að gera meira af því sem mér finnst skemmtilegast að gera og líka eyða meiri tíma með vinum mínum,“ segir Ítalinn Matteo Meucci.

Í tilefni fertugsafmælis síns sem er í janúar á næsta ári ætlar hann að fara í 100 ísklifurferðir á einu ári og toppa svo árið með því að hlaupa 100 km ofurmaraþon í ágúst næsta sumar. Verkefnið nefnist „Matteo’s 100 Challenge“ á samskiptamiðlum og er hægt að fylgjast með því á Instagram undir myllumerkinu #rockicerun

Ísklifur
Ísklifur Ljósmynd/Björgvin Hilmarsson

Matteo segir verkefnið töluverða áskorun, en hann stundar ísklifur og víðavangshlaup af krafti. Í sumar hljóp hann 83 km á um 11 klukkustundum og segist hann eiga „töluvert meira inni“ og „hvers vegna ekki að reyna við 100 km,“ segir hann og hlær. Markmiðið er að hlaupa 100 km á fjöllum og gera það á innan við 14 klukkustundum. „Það er svo gaman að hlaupa á fjöllum því maður kemst hratt yfir og sér fallegt landslag,“ segir hann. Hann neitar því ekki að það kitli hann einnig að bæta markmið sín og hlaupa alltaf aðeins lengra en síðast.  

Matteo stefnir að því að hlaupa 100 km á innan …
Matteo stefnir að því að hlaupa 100 km á innan við 14 klst. Ljósmynd/Joseph Mattos

Stefnir á 100 km hlaup á innan við 14 klukkustundum 

Nægt framboð af löngum víðavangshlaupum er í boði hér á landi til að búa sig undir 100 km hlaupið, að mati Matteo. Honum finnst fjölmargir stunda víðavangshlaup hér á landi og að það sé eiginlega í tísku. Matteo segist vera í sæmilegu formi, en hann starfar sem fjallaleiðsögumaður hjá Íslenskum fjallaleiðsögumönnum. Fyrirtækið styrkir hann einnig í verkefninu ásamt öðrum styrktaraðilum.       

Verkefnið hófst í byrjun október og því lýkur á sama tíma á næsta ári. Núna á Matteo 99 ísklifurferðir eftir því um síðustu helgi kleif hann Hvannadalshnjúk með tveimur félögum sínum. Nokkrar reglur gilda um klifurhluta verkefnisins. Ekki má fara sömu leið tvisvar og helst ætlar hann að reyna að fara nýja leið í hverjum ísklifursleiðangri, en á Íslandi eru um 700 slíkar leiðir þekktar. Hann bendir á að í því felist töluverð áskorun. 

Tilvalið að stunda ísklifur á Íslandi

Tímasetningar allra ferðanna liggja ekki fyrir því veður og vindar spila inn í. Matteo rennir hýru auga til febrúar- og marsmánaða, en ferðunum á eftir að fjölga þegar líða fer á veturinn. Ferðirnar verða blandaðar og þá gefst byrjendum jafnt sem lengra komnum tækifæri til að slást í för. Matteo segir mjög gefandi að leiðbeina byrjendum. Hægt er að kynna sér ferðirnar hjá Íslenskum fjallaleiðsögumönnum. 

Markmið verkefnisins er ekki síður að vekja athygli á því, jafn hér á landi sem og í Evrópu, að Ísland sé tilvalið til íslifurs. Hann segir mörg tækifæri liggja hér í ísklifri. „Yfirleitt eru aðstæður hér góðar og fullt af ís en veðrið getur líka breyst hratt,“ segir hann og hlær og bætir við að í ísklifurferðunum sé allt innifalið, bæði ísinn og íslensk veðrátta. Í kringum Reykjavík eru fjölmargir staðir heppilegir til að stunda ísklifur og nefnir hann Hvalfjörðinn sem dæmi og einkum Múlafjall. Fjallið er nokkuð eftirsótt hjá þeim sem klífa fjöll.         

Börnin ánægð á Íslandi

Gosið í Eyjafjallajökli er í raun ástæðan fyrir því að Matteo flutti til landsins ásamt Söru konu sinni og þremur börnum, sem eru á aldrinum 9, 7 og 5 ára. Þau eru frá Toskana á Ítalíu. Söru bauðst vinna hér á landi í tengslum við eldgosið í Eyjafjallajökli, en hún starfar sem fagstjóri eldfjallavár hjá Veðurstofu Íslands. Hjónunum þótti tilvalið að prufa að flytja hingað og sjá ekki eftir því. Þau hafa búið á Íslandi í þrjú ár og eru ekki á leiðinni aftur til Ítalíu í bráð.

Þeim líkar vel við land og þjóð og er íslensk náttúra ekki síður mikið aðdráttarafl. „Börnin eru líka ánægð með dvölina og skólann,“ segir hann og bætir við: „Eldgos þurfa því ekki alltaf að vera alslæm,“ segir hann og hlær.

Matteo er sjálfur með meistaragráðu í jöklafræði og unir hann sér því best úti undir berum himni á íslenskum jöklum. Honum líkar því dável að leiðsegja ferðamönnum á íslenskum jöklum. Hann bendir á að kannski sé eini gallinn á því að honum fari þá ekki mikið fram í íslenskunni á meðan.  

Hér má sjá kynningarmyndband af ferðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert