Eldsvoðinn raskar kennslu

Slökkviliðsmenn fyrir utan hús raunvísindadeildar Háskólans í nótt.
Slökkviliðsmenn fyrir utan hús raunvísindadeildar Háskólans í nótt. mbl.is/Júlíus

„Þetta er töluvert fjárhagslegt tjón,“ segir Oddur Ingólfsson, deildarforseti raunvísindadeildar Háskóla Íslands í samtali við mbl.is. Á fimmta tímanum í nótt varð mikill eldsvoði og sprengingar í kennslustofu Raunvísindadeildar á annarri hæð háskólabyggingarinnar VR I.

Frétt mbl.is: Sprengingar og eldur í tilraunastofu

Oddur segir erfitt að segja til um nákvæmlega hve mikið tjónið er að svo stöddu en ljóst sé að það muni raska kennslu við deildina. „Við verðum að leggja niður kennslu í þessu húsi allavega þangað til að það er búið að sjá hvernig í málinu liggur. Þannig að það verður allavega ekki kennt þessa vikuna held ég,“ segir Oddur. Spurður segist hann ekki vita hvað gæti hafa ollið eldinum.

Oddur var staddur við VR I ásamt fleira starfsfólki deildarinnar að kanna aðstæður og segir að svo virðist sem um sé að ræða nokkuð afmarkað svæði utan að frá að dæma en byggingin er lokuð svo starfsfólk kemst ekki inn. „Þannig að það er kannski vonast til að þetta sé ekki eins slæmt eins og það hljómaði í upphafi," segir Oddur.

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins að störfum við Háskólann í nótt.
Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins að störfum við Háskólann í nótt. mbl.is/Júlíus
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert