„Ertu ekki bara að segja ósatt?“

Verjendur og saksóknari þegar aðalmeðferð málsins hófst í síðustu viku.
Verjendur og saksóknari þegar aðalmeðferð málsins hófst í síðustu viku. mbl.is/Árni Sæberg

Rósant Már Torfason, fyrrverandi fjármálastjóri Glitnis og annar þeirra sem sömdu um friðhelgi í hrunmálunum við saksóknara, bar í dag vitni í Aurum-málinu svokallaða. Rósant var einn hinna þriggja sem skráðir voru fyrir að hafa samþykkt lánið sem ákært er fyrir í málinu, en hann segist ekki hafa vitað af því fyrr en slitastjórn bankans fór í mál við hann 1-2 árum eftir fall hans. Þó telur hann að bankinn hafi „staðið sterkar að vígi“ eftir lánveitinguna og tryggingamál sem tengdust henni.

Rósant tók við sem fjármálastjóri í Glitni í maí 2008. Umrætt lán var veitt félaginu FS38, sem var dótturfélag Fons, til að kaupa hlut 25,7% hlut Fons í Aurum Holding sem átti svo að selja áfram til félagsins Damas frá Dubai. Í ákæru málsins segir að verðmæti Aurum á þessum tíma hafi verið ofmetið og því hafi lánveitingin verið langt umfram það sem eðlilegt hafi mátt telja. Eru því þeir sem komu að lánveitingunni ákærðir fyrir umboðssvik eða hlutdeild að umboðssvikum. Lánið var veitt í júlí 2008 en málið hafði verið í vinnslu í 6-7 mánuði þar á undan. Var Rósant á þessum tíma í áhættunefnd bankans þar sem ákvörðunin var staðfest.

Þáttur Rósants í lánveitingunni umdeildur

Nokkuð hefur verið deilt um þátt Rósants í málinu, en samkvæmt fundargerð fundar áhættunefndar þar sem lánveitingin var staðfest kemur fram að samþykkið hafi farið fram utan fundar þar sem Rósant, ásamt ákærðu Magnúsi Arnari Arngrímssyni og Lárusi Welding, hafi samþykkt lánið. Á nefndarfundinum var Rósant ekki við, heldur símasambandslaus vestur á Ströndum.

Sagði hann í dag í dómsal að hann hefði verið mótfallinn lánveitingunni. Það hefði hann rætt við bæði Lárus og Magnús, en hann taldi réttast að málið færi fyrir lánanefnd stjórnar, líkt og tvö önnur mál á þessum tíma gerðu sem Rósant taldi vera eðlislík.

Fyrst var samþykkt að veita 2,2 milljarða lán

Mál FS38 hafði fyrst verið tekið fyrir á fundi áhættunefndar 11. júní 2008 þar sem samþykkt var að veita 2,2 milljarða lán til að kaupa hlutinn í Aurum. Var um að ræða kúlulán til 6 mánaða og voru bréfin í Aurum trygging. 200 milljónir af upphæðinni voru til greiðslu á gjaldföllnum vöxtum af láni Fons. Þá var auk þess gerð breyting á 2,5 milljarða lánum sem voru útistandandi á Fons á þessum tíma á þessum fundi.

Lárus Welding auk verjanda í málinu.
Lárus Welding auk verjanda í málinu. mbl.is/Árni Sæberg

Rósant sagði að umræddir viðskiptavinir hefðu ekki sætt sig við þessa niðurstöðu og því hefðu menn byrjað að ræða aftur saman málin. Var vísað til pósts frá 14. júní sem sendur var frá Bjarna Jóhannessyni, einum ákærðra í málinu, til Lárusar, Magnúsar og Rósants. „Held að PH sé kominn inn á okkar hugmynd á lausn Goldsmiths málsins. Við verðum off the hook þegar Damas kaupa bréfin,“ sagði í póstinum, en með PH er átt við Pálma Haraldsson, eiganda Fons.

Lánshugmyndin komin upp í 6 milljarða

Þann 1. júlí er svo komin önnur hugmynd upp, en þá sendir Bjarni póst til hinna þriggja. Þar er sett fram hugmynd um 6 milljarða lán, en í póstinum kemur að það eigi að vera notað til að greiða upp „Stím lán“, verið á „móti Plastprents bréfum“ og 0,5 milljarða trygging fyrir markaðsviðskiptum sem Pálmi hafði tapað þó nokkurri upphæð misserin þar á undan. „Þegar bréfin hafa verið seld til Damas standa eftir bréf að verðmæti 1,35ma sem þurfa að hækka í 3,1ma. Þangað til að því er náð þarf Fons að ábyrgjast mismuninn 1,75ma,“ segir einnig í póstinum.

Tekur Bjarni fram að Jón Ásgeir Jóhannesson, eigandi Baugs og stór hluthafi í Glitni á tímanum og einn ákærðra í þessu máli, sé „á bakinu á mér“ þar sem hann þurfi að greiða 320 milljónir daginn eftir. Leggur hann til hækkun á yfirdrætti hans sem því nemi.

„Mín skoðun“ var íhaldssamari

Rósant sendir póst stuttu síðar sama dag þar sem hann skrifar „Mín skoðun“. Þar leggur hann til varfærnari hugmynd sem í grunninn gengur út á að útflæði fjármuna sé 0,5 milljörðum lægra. „Eftir stendur þá 1,5 ma sem PH má þá ráðstafa,“ en í hinni útfærslunni var gert ráð fyrir að sú upphæð yrði um 2 milljarðar.

Um kvöldið sendir Lárus bréf á þá hina þar sem hann segir að hann og Rósant séu að lenda lausn í málinu. „Best sé að klára þetta svona og ganga svo hart á kappan þegar þetta er komið í höfn.“

Yfirdráttarheimild Jóns Ásgeirs hækkuð um 400 milljónir

Daginn eftir ítrekar Bjarni beiðnina frá Jóni Ásgeiri um hækkun á heimild hans um 320 milljónir upp í 566 milljónir. Segir hann það nauðsynlegt vegna þess að ekki sjái fyrir endann á „Gullsmiðnum“ en Aurum hét áður Goldsmith og var það nafn því oft notað. Þá segir hann: „yfirdráttinn á að gera upp með 1.000mkr til JÁ sem á að koma út úr Gullsmiðnum.“ Nokkuð hefur verið rætt um þessi tengsl Jóns Ásgeirs við framgang málsins, en bæði hann og Pálmi sögðu fyrir dómi að þetta væri vegna viðskipta með skuldabréf félagsins Þú Blásól sem Jón Ásgeir var eigandinn að. Saksóknari hefur aftur á móti reynt að tengja málið við Stím-viðskiptin, sem ákært var fyrir sérstaklega, en þar tapaði Fons talsverðum upphæðum. Hefur saksóknari ítrekað spurt vitni og ákærðu í málinu hvort Pálma hafi verið lofað skaðleysi í því máli sem hafi orsakað útgreiðsluna til hans í þessu máli.

Aurum málið í Héraðsdómi
Aurum málið í Héraðsdómi mbl.is/Árni Sæberg

Þann 6. júlí eru aftur tölvupóstsamskipti um 6 milljarða lánið og sagði Rósant í dómsalnum að hann hefði ekki verið því samþykkur. Daginn eftir var hann farinn í frí, en þann 9. júlí var lánabeiðnin skráð samþykkt á fundi áhættunefndar. Sagðist Rósant ekki hafa séð beiðnina fyrir fundinn né verið sammála um að hún yrði samþykkt.

Þann 14. júlí kom önnur beiðni frá Bjarna um hækkun á heimild fyrir Jón Ásgeir þannig að hún færi úr 566 milljónum í 720 milljónir. Óskaði hann þess að málið yrði afgreitt sem fyrst. Magnús, Lárus og Rósant samþykktu það allir á skömmum tíma. Fyrir dómi í dag sagði Rósant að þarna hefði hann verið kominn með upplýsingar um að Aurum-lánamálið væri samþykkt í áhættunefnd og aðeins ætti eftir að ganga frá pappírsvinnu. Því væri stutt í að Jón Ásgeir fengi um 1 milljarð úr þeim viðskiptum. „Sá því ekkert að því að samþykkja þessa hækkun heimildar,“ sagði hann í dag.

Heimildin hækkuð þótt hann teldi lánið ekki frágengið

Þessi svör komu verjendum á óvart, enda hafði Rósant áður lýst því yfir að hann teldi að málið ætti að fara fyrir lánanefnd stjórnar og að hans skoðun hefði á þessum tíma enn verið að svo yrði. Engu að síður hefði hann ákveðið að samþykkja hækkun heimildar um 154 milljónir þar sem tryggingin væri í raun greiðsla úr viðskiptum sem ekki hefðu verið samþykkt. Erfitt væri að sjá þetta ganga upp, enda vantaði að mati Rósants enn staðfestingu stjórnar á lánveitingunni til FS38.

Bankinn staðið „sterkar að vígi“ eftir lánveitinguna

Verjendur spurðu Rósant einnig ítrekað um skoðun hans á Aurum-viðskiptunum. Hann sagði að viðskiptalegt mat hans hefði verið að bankinn hefði staðið „sterkar að vígi“ eftir lánveitinguna sem var að lokum samþykkt upp á 6 milljarða og með að fá veð í bréfum fyrir 4 milljarða. Áður hefði bankinn verið með verri tryggingarstöðu á Pálma og fyrirtæki hans. Hann hefði aftur á móti talið fyrri lánahugmyndina sem var samþykkt á fundinum 11. júní vera mun betri fyrir bankann og því hefði hann verið mótfallinn seinni afgreiðslunni.

Var hann spurður af verjendum út í það af hverju hann gagnrýndi ekki tillöguna upp á 6 milljarða lán í tölvupóstum sem fóru á milli manna á þeim tíma. Sagði hann það snúast um vinnulag. „Ég veit að málið er ekki samþykkt fyrr en ég segi samþykkt,“ sagði Rósant og bætti við að sín reynsla væri að betra væri að ræða málin beint við fólk en að senda tölvupósta.

„Fannst þér ekki tilefni til að koma skoðun þinni á framfæri?“ spurði verjandi Lárusar Rósant. „Nei, ekki í tölvupósti,“ svaraði hann. Sagðist hann spurður hvort slíkur póstur gæti grafið undan forstjóranum að hann hefði kosið að svara ekki tölvupóstinum.

Gekkst við láninu í yfirheyrslu hjá Glitni

Næst spurðu verjendur Rósant um yfirheyrslur sem hann var í hjá slitastjórn Glitnis. Kom í ljós að hann hefði þar gengist við því að hafa samþykkt lánið á fundinum sem hann var ekki á. Sagðist Rósant hafa rekist á þetta samþykki við skoðun fundargerða og klórað sér í hausnum yfir þessu. Taldi hann sig hafa verið mótfallinn málinu, en þarna hefði staðið svart á hvítu að hann hefði staðfest málið. Svaraði hann því þá til í skýrslutökunni að svo hlyti að vera.

„Var efinn ekki meiri en svo að þú gekkst við þessu í skýrslutöku hjá slitastjórn Glitnis?“ spurði verjandi og svaraði Rósant því játandi.

„Ertu ekki bara að segja ósatt?“

 Að lokum spurði verjandi út í friðhelgi Rósants og hvaða upplýsingar hann hefði gefið í skiptum. Sagði Rósant ekki hafa komið til þess þar sem saksóknari hefði rannsakað málið og komist að þeirri niðurstöðu að ákæra ekki.

Verjandi Lárusar fór því næst í gegnum helstu atriði úr vitnisburði Rósants. Rifjaði hann upp að hann hefði verið með stöðu sakbornings en svo fengið friðhelgi. Hann hefði rætt lánveitinguna við ákærðu í málinu og síðar verið skráður sem samþykkur fyrir henni. Hann hefði ekki gert athugasemdir við fundargerðina og samþykkt yfirdráttarheimildina á Jón Ásgeir. Þá hefði hann viðurkennt í skýrslutöku slitastjórnarinnar að hann hefði veitt lánið, aðeins 1-2 árum eftir lánveitinguna. „Ertu ekki bara að segja ósatt um að þú hafir verið málinu mótfallinn og viljað sjá það fyrir stjórn bankans?“ spurði verjandinn. Svar Rósants var aftur á móti skýrt nei við þeirri spurningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert