Farangurinn kom fimm dögum of seint

Primera Travel Group er móðurfélag bæði Primera Air og Heimsferða.
Primera Travel Group er móðurfélag bæði Primera Air og Heimsferða.

Fjöldi farþega í flugi Primera Air frá Sikiley á fimmtudaginn síðasta fengu farangur sinn ekki afhentan við komuna til Íslands. Samkvæmt upplýsingum frá farþegum skilaði farangurinn sér til þeirra í morgun, fimm dögum of seint. Eru þeir að eigin sögn mjög ósáttir við þær upplýsingar sem þeir hafa fengið frá Heimsferðum og Primera Air um málið. Hrafn Þorgeirsson, framkvæmdarstjóri Primera Air, segir í samtali við mbl.is að bilun í hreyfli hafi orðið til þess að létta þurfti vélina fyrir flugtak.

Frétt mbl.is: Töskunum mokað út fyrir flugtak

Sigurbjörn Sveinsson og Elín Ásta Hallgrímsson voru meðal farþega og segja þau að ferðin sjálf hafi verið dásamleg og vel heppnuð í alla staði. Sigurbjörn segir þó að farangursvesenið hafi í raun verið „ömurlegur endir á góðu fríi“.

Sigurbjörn segir að takmarkaðar upplýsingar hafi verið gefnar um málið við brottför í Sikiley. „Flugstjórinn kemur í hátalakerfið og segir að samkvæmt reglum verði hann að létta vélina fyrir flugtak. Það sem vakti athygli mína var að ég held að það hafi ekki verið nema 75% setin vél. Hún átti að geta tekið okkur öll og töskurnar og eldsneyti.“ Því hafi vaknað spurningar um hvort eitthvað annað væri í vélinni en fólk og farangur þess, svo sem ávaxtafarmur eða annað slíkt.

Sigurbjörn og Elín Ásta segja að við komuna í Leifsstöð hafi tiltölulega fáar töskur birst á farangursbandinu. Því hafi margir farþegar þurft að eyða tíma í að bíða í röð og fylla út pappíra vegna glataðs farangurs, þar á meðal þau hjónin. „Þarna biðum við í kulda og trekki í langri röð reiðra farþega sem reyndu að skilja hvað hafði gerst,“ segir Elín Ásta.

Sem fyrr segir komust töskurnar til skila í morgun, en í farangri Elínar Ástu voru allar snyrtivörur hennar. Þurfti hún því að fjárfesta í nýjum snyrtivörum og hyggst hún leita réttar síns hjá Primera Air vegna endurgreiðslu fyrir þann kostnað. Elín og Sigurbjörn segja þó að aðrir farþegar hafi verið í verri málum, þar sem lyf og jafnvel bíl- og húslyklar hafi verið í farangri sem ekki barst. Fyrir utan vesenið sem fylgdi sé því um töluvert tjón að ræða fyrir suma, einhverjir hafi þurft að finna sér hótel yfir nóttina.

Sigurbjörn segir að upplýsingar um hvenær töskurnar kæmu til landsins hafi borist á föstudaginn en hafi verið ófullnægjandi. „Það var fjöldi manns þarna sem fékk ekki farangurinn sinn. Þetta var gert af ásettu ráði og flugfélagið hefur engar skýringar gefið á þessu.“

Hrafn Þorgeirsson, framkvæmdastjóri Primera Air.
Hrafn Þorgeirsson, framkvæmdastjóri Primera Air.

Bilun í hreyfli valdur að þyngdartakmörkunum

Andri Már Ingólfsson er forstjóri og einn eiganda Primera Travel Group, sem er móðurfélag Primera Air. Í samtali við mbl.is segir hann að sú skýring hafi verið gefin innanhúss að smávægileg bilun hafi orðið til þess að létta þyrfti vélina. „Þá var tekin sú ákvörðun að koma öllum farþegum heim en skilja einhverjar töskur eftir.“

Hrafn Þorgeirsson, framkvæmdastjóri Primera Air, staðfestir þetta: „Það var smá bilun í öðrum hreyflinum sem gerði það að verkum að við þurftum að forðast ísingu á leiðinni. Það var annaðhvort að létta vélina eða bara aflýsa fluginu.“

Hrafn segir fyrirtækið harma atvikið en að líklega verði farþegum ekki tilkynnt sérstaklega um ástæður þess að farangur þeirra var skilinn eftir í Sikiley. „Það er í sjálfu sér ekki vani í flugbransanum. Við biðjumst auðvitað velvirðingar á þessu en venjulega eru ekki sendar út tæknilegar útskýringar þannig að ég held að það verði ekki gert.“ 

Spurður um ábyrgð flugfélagsins gagnvart farþegum segir Hrafn að ef einhver hafi orðið fyrir tjóni vegna seinkunar á farangri eigi viðkomandi rétt á að leita réttar síns hjá þeim.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert