Máltíð fyrir 110 manns á sex tímum

Kokkalandsliðið að störfum.
Kokkalandsliðið að störfum. Ljósmynd/Aðsend

Kokkalandslið Íslands mun í dag matreiða þriggja rétta máltíð fyrir 110 manns á sex klukkustundum á Ólympíuleikunum í matreiðslu sem standa yfir í Erfurt í Þýskalandi.

Landsliðið er að koma sér fyrir í keppniseldhúsunum, tilbúið að heilla dómnefndina upp úr skónum. „Þetta er mjög þétt dagskrá en þetta er mjög skemmtilegt lið og góður andi. Við erum langflottust í búrinu,“ segir Þráinn Freyr Vigfússon, faglegur framkvæmdastjóri liðsins, og bætir við að seinni hálfleikurinn á leikunum sé að hefjast.

Fyrri hálfleikurinn gekk vel hjá landsliðinu því það hreppti gull í einum flokki og silfur í öðrum fyrir kalda borðið sitt á sunnudaginn.

Frétt mbl.is: Eitt gull og eitt silfur í hálfleik

Ljósmynd/Aðsend

Að sögn Þráins Freys verða verðlaun fyrir þriggja rétta máltíðina líklega veitt í fyrramálið. Úrslitin í heildarstigagjöfinni verða einnig kunngjörð á morgun.

„Ég er mjög vongóður vegna þess sem við erum  að gera núna en svo er ofboðslega erfitt að spá hvar við lendum yfir allt,“ segir hann, spurður út í möguleika landsliðsins. „Við erum við toppinn en það er erfitt að segja.“

Hann segir að mótið hafi gengið mjög vel. „Núna er bara að klára þetta eins og alvöru lið, það sem við höfum verið að æfa.“

Matseðillinn sem landsliðið mun elda í dag:

Forréttur

Léttreykt ýsa með humri, íslensk smágúrka með vatnakarsakremi og grásleppuhrognum. Gljáð svartrót og svartrótarflögur, brúnaður laukur, humar- og kræklingasmjörssúpa.

Aðalréttur

Nautahryggur og nautamergur með jurtum, hægelduð nautabringa með grilluðu grænkáli og jarðskokkamauki. Kartafla með svörtum hvítlauk og parmesanosti. Ristaðir shiitake-sveppir, bóndabaunir og blaðlaukur. Uxahala- og rauðvínssósa.

Eftirréttur

Skyr- og karamellumús, rifsberjahlaup, stökkar hnetur og kakóbinnbur. Pera með verbena-dressingu og pistasíum. Stökk vatnsdeigsbolla með sítrónukremi, Skyrís á súkkulaði og kakóbaunum.

Kokkalandsliðið mun hafa í nógu að snúast í dag.
Kokkalandsliðið mun hafa í nógu að snúast í dag. Ljósmynd/Aðsend

Búist við 25 þúsund gestum

Á keppnisstað eru nokkur fullbúin eldhús fyrir landsliðin þar sem keppt er á hverjum degi í fimm daga. Keppt er um gull-, silfur- og bronsverðlaun.

Landsliðin frá Kýpur, Tékklandi, Möltu, Hollandi, Nýja-Sjálandi, Singapúr og Srí Lanka keppa í dag á sama tíma og íslenska landsliðið. Alls eru landslið frá um 40 löndum sem keppa í nokkrum mismunandi keppnum.

Búist er við hátt í 25.000 gestum í keppnishöllina meðan á keppninni stendur. Gestir hafa möguleika á að sjá inn í eldhús landsliðanna og fylgjast með kokkunum að störfum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert