Andlát: Reynir Ragnarsson

Reynir Ragnarsson
Reynir Ragnarsson

Reynir Ragnarsson endurskoðandi lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi laugardaginn 22. október, á 69. aldursári.

Reynir fæddist 6. desember árið 1947. Hann var framarlega í íþróttahreyfingunni og var formaður ÍBR, Íþróttabandalags Reykjavíkur, árum saman.

Reynir útskrifaðist úr Verzlunarskóla Íslands árið 1967, fór svo í viðskiptafræði og varð löggiltur endurskoðandi árið 1975. Hann rak sína eigin endurskoðunarskrifstofu sem nefnist Þrep. Hann lauk MBA-prófi frá Háskóla Íslands árið 2003. Reynir var virkur í Rotary-hreyfingunni árum saman.

Hann vann mikið fyrir ÍR og var í stjórn þess félags áður en hann kom inn í framkvæmdastjórn ÍBR árið 1988 og var kjörinn formaður þar árið 1994 og sinnti því starfi til ársins 2009. Hann leiddi íþróttabandalagið á breytingatímum þess. Hann var fulltrúi ÍBR í mörgum nefndum á vegum félagsins. Meðal annars sat hann í stjórn Íslenskrar getspár og var í rekstrarnefnd Laugardalsvallar, byggingarnefnd Skautahallarinnar í Laugardal og ýmsum nefndum Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands.

Reynir var mikill áhugamaður um ferðalög, útivist og siglingar. Átti hann seglskútu og sigldi um Eystrasaltið og þaðan til Íslands.

Hann skilur eftir sig eiginkonu, Halldóru Gísladóttur, börn og barnabörn.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert