Ríflega 56 þúsund bólusetningar

Eliza Reid forsetafrú fær sér kaffi og styrkir gott málefni.
Eliza Reid forsetafrú fær sér kaffi og styrkir gott málefni. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Alls safnaðist sem nemur 56.200 bólusetningum gegn mænusótt í átaksverkefni UNICEF á Íslandi og Te & Kaffi sem bar heitið Klárum málið og fór fram í september. Te & Kaffi gaf andvirði einnar bólusetningar gegn mænusótt af hverjum seldum drykk, auk þess sem viðskiptavinum var boðið að bæta við andvirði bólusetningar er þeir greiddu fyrir drykkinn. Þetta kemur fram í tilkynningu frá UNICEF á Íslandi. 

Eliza Reid forsetafrú hóf átaksverkefnið í byrjun september.

Mænusóttarveiran er mjög smitandi og getur valdið bæði lömun og dauða. Engin lyf eru til sem lækna mænusótt. Einungis er hægt að koma í veg fyrir að fólk fái veikina og er það gert með bólusetningu.  

Þetta var í fjórða sinn sem UNICEF á Íslandi og Te & Kaffi tóku höndum saman í kaffihúsaátaki og í þriðja sinn sem safnað var fyrir mænusótt. Alls hefur nú safnast andvirði 250.549 bólusetninga hér á landi. Miðað við að hvert barn þurfi að fá þrjár bólusetningar dugar þessi fjöldi bólusetninga fyrir fleiri en 85.000 börn.

Átaksverkefninu nú í ár var sem fyrr mjög vel tekið. Te & Kaffi hefur verið ómetanlegur stuðningsaðili UNICEF á Íslandi frá árinu 2008 og safnað yfir 30 milljónum króna fyrir samtökin.

Klárum málið!

Mikill árangur hefur náðst í baráttunni gegn mænusótt síðustu áratugi. Tekist hefur að fækka tilfellum um 99,99% frá árinu 1988, en þá var veikin landlæg í 125 löndum. Í dag er mænusótt einungis landlæg í Afganistan og Pakistan.

Þessum frábæra árangri hefur fyrst og fremst verið náð með afar víðtækum bólusetningum.  UNICEF, Rótarý-hreyfingin, Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin og fleiri hafa verið þar í fararbroddi, ásamt milljónum sjálfboðaliða. 

Mænusóttarveiran er afar smitandi og talið er að ef sjúkdómurinn færi aftur á flug í heiminum gæti staðan eftir tíu ár verið orðin sú að 200.000 börn smituðust árlega af veikinni á heimsvísu. Til samanburðar hafa einungis komið upp 27 tilfelli á þessu ári. Sérstök hætta er á að sjúkdómurinn breiðist út þar sem innviðir hafa brostið, svo sem á átakasvæðum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert