Þingvallanefnd vill að ríkið kaupi lóðina

Þingvallanefnd vill að ríkið nýti forkaupsrétt sinn að Vallarstíg 7 …
Þingvallanefnd vill að ríkið nýti forkaupsrétt sinn að Vallarstíg 7 nyrðri. mbl.is/Golli

Þingvallanefnd hefur lýst yfir vilja til að nýta forkaupsrétt á lóðinni Valhallarstíg nyrðri 7, en á lóðinni er grunnur að sumarhúsi í eigu Boga Pálssonar sem kenndur er við Toyota. Lóðin hefur áður verið í eigu athafnakonunnar Sonju Zorilla og Vigdísar Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta. Áður hafði verið ákveðið að nýta ekki forkaupsrétt ríkisins, þar sem fjármagn er ekki til staðar.

Sigrún Magnúsdóttir, umhverfisráðherra og formaður Þingvallanefndar, segir nefndina hafa tekið málið aftur fyrir í dag á síðasta fundi sínum fyrir kosningar. Lóðin, sem er metin á 85 milljónir króna, hefur verið mikið til umræðu undanfarin ár.

„Við tókum þetta mál upp aftur í dag og lögð var fram sameiginleg tillaga frá nefndinni,“ sagði Sigrún í samtali við mbl.is. Nefndin lýsi í fyrsta lagi yfir áhuga á að ríkið nýti forkaupsrétt sinn, þá sé því  beint til forsætisráðherra að skoða þurfi frekari annmarka á málinu og þau álitamál sem hafi komið upp. „Síðan er þeirri beiðni beint til forsætsiráðuneytisins að fundið verði fjármagn til kaupanna,“ segir Sigrún, en fyrir liggur að ekki eru til fjárveitingar fyrir kaupum á lóðinni.

Þingvallanefnd hefur keypt þrjár lóðir nú í haust. „Það væri hreinast að geta keypt lóðina,“ segir Sigrún. Reynist það hins vegar ekki mögulegt þurfi að taka út heildarmat á lóðinni þar sem ýmsir annmarkar eða misræmi varðandi byggingaleyfi, stærð og annað slíkt sé að finna í gögnum og fundargerðum Þingvallanefndar.

„Nefndin var samstiga í því að þetta yrði skoðað betur, en við vitum jafnframt að við höggvum á ákveðinn hnút með kaupum á lóðinni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert