Þolandinn á að halda starfi sínu

Frá fundinum sem haldinn var á Grand Hótel í dag.
Frá fundinum sem haldinn var á Grand Hótel í dag. mbl.is/Ófeigur

Sumir karlkyns starfsmenn frá Austur-Evrópu eiga erfitt með að starfa undir kvenkyns yfirmanni. Þetta er meðal þess sem fram kom í máli Guðmundar Oddgeirssonar, framkvæmdastjóra Hýsingar vöruhótels, á fundi Vinnueftirlitsins og velferðarráðuneytisins um kynferðisáreitni á vinnustöðum í morgun.

Sagðist hann hafa kynnst ýmsu í störfum sínum, þar sem fyrirtækið kæmi víða við í heiminum, og að ákveðinn menningarmunur væri vissulega til staðar.

Innan við tíu atvik hefðu komið inn á borð til hans á síðustu fimmtán árum, og hefðu gerendur verið konur jafnt sem karlar.

„Það kom mér nokkuð á óvart þegar ég var að taka þetta saman,“ bætti Guðmundur við og sagði aðspurður að skipting gerenda eftir þjóðerni væri í réttu hlutfalli við fjölda erlendra starfsmanna.

Hann benti enn fremur á að stjórnendur í fyrirtækjum væru oft síðastir til að vita af viðgangandi áreitni.

Stjórnendur vinnustaða eru oft síðastir til að vita af áreitni, …
Stjórnendur vinnustaða eru oft síðastir til að vita af áreitni, sagði Guðmundur.

Reglan skýr innan fyrirtækisins

„Það er oft erfitt skref fyrir þolanda að koma fram og segja frá áreiti, einkum þegar gerandi er úr hópi stjórnenda,“ sagði hann. Mikilvægt væri þá að gefa út fræðsluefni um kynferðisáreitni á ensku og pólsku, til að mæta þörfum vinnumarkaðarins.

Að lokum sagði hann að reglan innan síns fyrirtækis væri skýr: „Kynbundið ofbeldi, einelti og yfirgangur er og verður ekki liðið,“ sagði Guðmundur.

„Þolandinn heldur starfi sínu, gerandinn ekki.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert