„Það er kominn vetur“

Veðurspáinn á hádegi á fimmtudag, eins og hún leit út …
Veðurspáinn á hádegi á fimmtudag, eins og hún leit út klukkan 23 á miðvikudagskvöld.

„Það er kominn vetur og það má búast við næturfrosti og hálku sem henni fylgir,“ segir Helga Ívarsdóttir, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands. Gera megi ráð fyrir umhleypingum næstu daga og full ástæða sé að hafa varann á. „Fólk á að vera komið af sumardekkjunum, sérstaklega þeir sem eru að fara á milli landshluta.“

Gera má ráð fyrir éljum eða snjómuggu með tilheyrandi hálku á fjallvegum á Vestfjörðum og vestantil á Norðurlandi í kvöld, s.s. á Þverárfjalli og Öxnadalsheiði. Seint í kvöld og í nótt frystir almennt ofan 200-300 m og þá má reikna með éljum á Hellisheiði, Mosfellsheiði, Snæfellsnesi, Bröttubrekku og Holtavörðuheiði.  

Veðurvefur mbl.is

Á morgun verður síðan suðvestanátt og él á landinu. Á föstudag dregur hægt úr og kólnar um kvöldið og má búast við að víða verði frost, en þó síst við sjávarsíðuna.

Á kjördag, á laugardag, hlýnar síðan aftur með lægð sem kemur upp að landinu með vaxandi vindi. „Það má búast við að það byrji með snjókomu og slyddu en færist svo yfir í rigningu þegar líður á daginn,“ segir Helga.

„Svo snýr hann sér aftur í vestan með skúrum og éljum, áður en áttin verður norðlægari.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert