Furðan alltaf til staðar í sagnahefðinni

Furðusagnahöfundurinn Alexander Dan er einn skipuleggjenda hátíðarinnar.
Furðusagnahöfundurinn Alexander Dan er einn skipuleggjenda hátíðarinnar. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Sameiginlegt einkenni [furðusagna] er að á einhverjum tímapunkti fær raunveruleikinn að víkja; náttúrulögmál eru brotin með göldrum eða vísindum eða eitthvað ónotalegt læðist inn- eitthvað sem ekki er eðlilegt,“ segir Alexander Dan Vilhjálmsson, einn skipuleggjenda Icecon furðusagnahátíðarinnar á Íslandi 2016.

Nördumst aðeins saman,“ sagði m.a. í fréttatilkynningu sem skipulagshópur Icecon, furðusagnahátíðar á Íslandi 2016, sendi fjölmiðlum síðsumars og gaf upp stað og stund fyrir nördaháttinn. Markmiðið var að smala saman hópi áhugafólks um furðumenningu; fantasíur, vísindaskáldsögur, hrollvekjur og allt þar á milli auk þess að kynna hátíðina, sem nú styttist óðum í.

„Þetta er allt að smella saman,“ segir Alexander Dan Vilhjálmsson, furðusagnahöfundur og einn skipuleggjenda hátíðarinnar, þeirrar fyrstu sinnar tegundar á Íslandi að hans sögn. „Hátíðahöldin standa yfir frá föstudegi til sunnudagskvölds og þegar hafa 115 manns skráð sig til leiks. Íslendingar nokkurn veginn til jafns við þátttakendur frá öðrum löndum á Norðurlöndunum, Bretlandi og Bandaríkjunum, og konur til jafns við karla.“

Pallborðsumræður og grímuball

Hátíðin verður haldin í Iðnó og miðast dagskráin að miklu leyti við furðusagnabókmenntir auk þess sem boðið verður upp á umræður um önnur efni eða listgreinar sem tengjast furðumenningu. Meðal dagskrárliða eru pallborðsumræður, viðtöl og grímuball auk þess sem settir verða upp sölu- og kynningarbásar. Heiðursgestir hátíðarinnar eru rithöfundarnir Elizabeth Bear frá Bandaríkjunum og Karin Tidbeck frá Svíþjóð.

Þótt furðumenning sé nýyrði segir Alexander furðuna alla tíð hafa verið til staðar í sagnahefð Íslendinga og þjóðsögunum og ennþá eiga erindi. „Furðumenning er víðtækt hugtak sem á ensku er kallað fandom og er viðhaft um samfélag aðdáenda furðusagna, svokallaðra „sci-fi“ og „fantasy“ bókmennta, sem eru býsna yfirgripsmiklar. Við vildum þýða konseptið yfir á íslensku og gera furðumenningu að nokkurs konar samheiti yfir fyrirbærið, allt frá draugum og forynjum til geimvera og stjörnustríða. Og ekki bara í bókum heldur líka í teiknimyndum, sjónvarpsþáttum, kvikmyndum, myndlist og tónlist.“

Í rauninni er Alexander á því að furðumenningin sé alltumlykjandi í öllum listgreinum og kimum samfélagsins úti um allan heim. „Sameiginlegt einkenni er að á einhverjum tímapunkti fær raunveruleikinn að víkja; náttúrulögmál eru brotin með göldrum eða vísindum eða eitthvað ónotalegt læðist inn, eitthvað sem ekki er eðlilegt,“ útskýrir hann.

Spurður hvort slíkt samfélag aðdáenda furðusagna samanstandi mestmegnis af ungu fólki segir hann flesta vera á þrítugsaldri, en líka miklu eldri, t.d. séu einhverjir á sjötugsaldri búnir að boða komu sína á hátíðina.

Jaðarbókmenntir?

Sjálfur hefur Alexander lifað og hrærst í furðumenningunni um alllangt skeið. Fyrir tveimur árum sendi hann frá sér skáldsöguna Hrímland, sögu þar sem nútíminn rennur saman við furðusagnaheiminn. „Með furðusagnahátíðinni viljum við, aðstandendur hennar, hefja bókmenntagreinina til vegs og virðingar.“

Hann og félagar hans í nefndinni vilja meiri umræður á opinberum vettvangi og að bækurnar séu gagnrýndar og greindar á við bókmenntir af öðru tagi, bæði bækur ætlaðar fullorðnum sem og barnabækur. „Við viljum ýta undir að hér myndist samfélag kringum þessa tegund bókmennta, gefa henni aukið vægi svo hún vaxi og dafni. Furðusagnir teljast varla jaðarmenning lengur, enda hefur dægurmenningin fyrir löngu tekið við sér og að hluta til eignað sér þær. Núna þykir til dæmis enginn nörd þótt hann geti þulið upp úr sér alls konar ítarefni úr Star Trek.“

Hugmyndina að hátíðinni um helgina fengu hann og nokkrir félagar þegar þeir sátu furðusagnaráðstefnu á Álandseyjum í fyrra. „Þátttakendur voru mjög forvitnir um furðumenningu á Íslandi og gerðu sér far um að kynnast okkur. Margir létu í ljós vilja til að mynda tengsl inn í íslenska furðumenningu og hvöttu okkur til að efna til ráðstefnu á Íslandi með svipuðu sniði og þessa á Álandseyjum.“

Vettvangur til að sameina hópa

Alexander segir tíu manna skipulagsnefndina ekki endilega harðasta kjarnann í íslenska furðusagnaheiminum, heldur einfaldlega fólk sem varð við áskorunum erlendis frá og lét til skarar skríða. Innan furðumenningarinnar séu margir og ólíkir hópar með mismunandi áherslur, einn á teiknimyndasögum, annar á larp, eins og hann kallar hlutverkaleiki, og svo mætti lengi telja.

„Milli þessara hópa eru ekki nógu mikil tengsl. Okkur langar til að búa til öflugan vettvang til að sameina hópana, byggja brú á milli landa, og er hátíðin liður í þeirri viðleitni,“ segir hann og upplýsir að á sambærilegum hátíðum erlendis sé hefð fyrir grímuballi.

„Þótt ég þekki ekki mikið til hópa fólks sem kemur saman og klæðir sig upp í búninga furðusagnahetja, finnst mér slíkt spennandi og því upplagt að efna til grímuballs í tengslum við hátíðina. Einnig vel við hæfi því hrekkjavakan er á næsta leiti,“ segir Alexander og upplýsir að forsprakkar hátíðarinnar stefni á að halda Icecon 2018 og að fá þá breiðan hóp fólks til að koma að undirbúningnum.

Heiðursgestir hátíðarinnar

Elizabeth Bear frá Bandaríkjunum hefur skrifað fjölda fantasía og vísindaskáldsagna, þ.á m. þríleikina The Edda of Burdens og Eternal Sky. Hún hefur hlotið John W. Campbell bókmenntaverðlaunin, Locus verðlaunin og Hugo verðlaun fyrir bækur sínar.

Karin Tidbeck frá Svíþjóð gaf út sína fyrstu bók 2010, en hún er þekktust fyrir frumlegar smásögur sem lýst hefur verið sem „weird“ eða „new weird“ og íslenskt áhugafólk um furðusagnir hefur þýtt sem nýfurðu. Tidbeck hlaut Crawford bókmenntaverðlaunin 2013 fyrir smásagnasafnið Jagannath.

Nánari upplýsingar:www.icecon2016.wordpress.com. Fyrirspurnir sendist til icecon2016@gmail.com
Furðan tekur á sig margar myndir.
Furðan tekur á sig margar myndir. Ljósmynd/Wikipedia
Furðusagnir speglast í hlutverkaleikjum, teiknimyndasögum, tónlist, myndlist og alls konar …
Furðusagnir speglast í hlutverkaleikjum, teiknimyndasögum, tónlist, myndlist og alls konar dægurmenningu.
Ísland hefur verið umsetið furðunni um ár og aldir. Guðbrandskort …
Ísland hefur verið umsetið furðunni um ár og aldir. Guðbrandskort er dagsett árið 1585.
Karin Tidbeck frá Svíþjóð gaf út sína fyrstu bók 2010.
Karin Tidbeck frá Svíþjóð gaf út sína fyrstu bók 2010.
Elizabeth Bear frá Bandaríkjunum hefur skrifað fjölda fantasía og vísindaskáldsagna.
Elizabeth Bear frá Bandaríkjunum hefur skrifað fjölda fantasía og vísindaskáldsagna.
Tröll koma við sögu í Síðasta bænum í dalnum frá …
Tröll koma við sögu í Síðasta bænum í dalnum frá 1950.
Furðusagnir speglast í hlutverkaleikjum, teiknimyndasögum, tónlist, myndlist og alls konar …
Furðusagnir speglast í hlutverkaleikjum, teiknimyndasögum, tónlist, myndlist og alls konar dægurmenningu
Tröll koma við sögu í Síðasta bænum í dalnum frá …
Tröll koma við sögu í Síðasta bænum í dalnum frá 1950.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert