Gögnin sem ekki fóru í málið

Verjendur í málinu telja að saksóknari hafi ekki lagt til …
Verjendur í málinu telja að saksóknari hafi ekki lagt til grundvallargögn í málinu sem gagnist vörninni. mbl.is/Árni Sæberg

Nokkuð var um að gögn sem ákærðu og verjendur þeirra telja grundvallargögn í Aurum-málinu hafi ekki skilað sér í gögn málsins. Þetta kom fram í skýrslutöku yfir yfirlögregluþjóninum Grími Grímssyni, sem stýrði rannsókn sérstaks saksóknara í málinu.

Grímur var kallaður sem vitni af hálfu ákæruvaldsins. Sagði hann ástæður þess að ýmis gögn hefðu ekki verið lögð fram í málinu vera meðal annars þá að mikill kostnaður hefði fylgt því að þýða skjölin, einhver skjölin hefðu verið ókláruð og þá hefðu skýrslutökur í málinu ekki bent til þess að gögnin hefðu verið notuð við ákvarðanatöku.

Farið fram á þunga fangelsisdóma

Verjendur gagnrýndu þessar skýringar Gríms og spurði Gestur Jónsson, verjandi Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, hvort Grímur gerði sér ekki grein fyrir að hér væri verið að fara fram á þunga fangelsisdóma yfir mönnum vegna meintra alvarlegra brota.

Gögnin sem um ræðir eru flest öll verðmöt eða verðáætlanir sem gerð voru af ýmsum aðilum sem komu að málinu á mismunandi stigum þess. Fór Gestur yfir þau í morgun og spurði Grím um ástæður þess að þau komu ekki inn í gögn málsins sem verjendum eru meðal annars afhent.

Verðmatið frá Dubai

Eitt verðmatanna er mat sem unnið var fyrir félagið Damas frá Dubai, en það var á þeim tíma sem málið nær til í viðræðum við íslensku félögin Baug og Fons um kaup á hlut í Aurum holding, skartgripafyrirtæki í London. Grímur staðfesti að gögnin hefðu borist þeim, en þar kemur meðal annars fram að verðmæti Aurum hafi verið um 107 milljónir punda.

Í málinu er meðal annars deilt um verðmæti Aurum, en saksóknari segir það hafa verið ofmetið og samhliða því hafi Glitnir banki veitt lán sem var langt umfram verðmæti fyrirtækisins til kaupanna.

Gestur benti á að áreiðanleikakönnunin hefði verið um 350 blaðsíður og spurði hann hálfgáttaður af hverju ákæruvaldið hefði ekki talið þetta mikilvægt fyrir vörnina. Sagði Grímur að þeir hefðu fengið skjalið frá Damas, en það hefði hvorki verið fullklárað né undirritað. Þá hefði komið fram í yfirheyrslum yfir forstjóra Damas að þeir hefðu ekki fullklárað samningana.

Póstar milli verjanda og saksóknara

Þá sýndi Gestur pósta sem sendir voru milli verjanda Lárusar Welding, fyrrverandi bankastjóra Glitnis og eins ákærða í málinu, og saksóknara. Óskaði verjandinn eftir gögnum um áreiðanleikakönnunina frá Damas sem þeir svo byggðu verðmatið á. Fékk hann þau svör að ekki hefði verið send formleg beiðni um slík gögn enda hefði verið spurning í huga rannsakenda hvaða þýðingu gögnin kynnu að hafa, þar sem könnunin lá ekki fyrir fyrr en eftir að lánið var veitt.

Sagði Gestur þetta fráleita skoðun, sérstaklega í ljósi þess að í yfirheyrslum yfir starfsmanni þjóðarbanka Dubai, sem hafði aðkomu að málinu fyrir hönd Damas, hefði komið fram að þeir hefðu talið 100 milljóna verðmat sennilegt og „innan ásættanlegra marka“.

Verðmat Kaupþings

Næst var komið að verðmati sem hafði verið unnið hjá Kaupþingi, en bankinn hafði fyrst komið að mögulegum kaupum Damas að hlutnum í Aurum. Var matið unnið af starfsmanni Kaupþings en kom ekki inn í gögn málsins. Grímur sagðist ekki hafa séð matið við rannsókn málsins. Gestur vísaði í yfirheyrslur yfir öðrum starfsmönnum sem bentu á að matið hefði verið gert, en Grímur benti á móti að þegar þeir hefðu yfirheyrt starfsmanninn sem gerði matið hefði hann gert mjög lítið úr því og sagt það gert á 5 mínútum.

Verjendurnir Gestur Jónsson og Helgi Sigurðsson ásamt Bjarna Jóhannessyni og …
Verjendurnir Gestur Jónsson og Helgi Sigurðsson ásamt Bjarna Jóhannessyni og Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, sem báðir eru ákærðir í málinu. mbl.is/Árni Sæberg

Yfirlýsing frá Damas til Baugs

Annað skjal sem ekki var í skjölum málsins var póstur frá Damas til Baugs þar sem lýst var yfir vilja til viðræðna um kaupin og sett fram verðhugmynd. Embætti saksóknara hafði haldlagt pósthólfið þar sem þetta gagn var að finna og voru leitarorð í póstinum þannig að auðvelt hefði verið að finna það. Sagðist Grímur ekki eiga skýringar á af hverju þetta skjal hefði ekki ratað inn í málið.

Upplýsingakynningar Glitnis um Damas

Þá spurði Gestur Grím einnig um upplýsingakynningar sem Glitnir hafði gert um Damas og  spurði hann af hverju þær hefðu ekki komið fyrir í gögnum málsins. Gat Grímur ekki svarað því né hver hefði tekið ákvörðun um að setja það ekki inn í málið.

Friðhelgi eins sakbornings

Að lokum spurði Gestur hann um bréf þar sem ríkissaksóknari ákvað að Rósant Már Torfason, fyrrverandi fjármálastjóri Glitnis, yrði ekki ákærður á grundvelli svokallaðrar 5. greinar laga um embætti sérstaks saksóknara. Þar er heimild til að veita mönnum friðhelgi í ýmsum tilvikum, t.d. með aðstoð við að rannsaka málið. Rósant var meðal sakborninga í málinu meðan það var til rannsóknar. Sagði Gestur að vörninni hefði ekki borist bréfið fyrr en eftir að þeir hefðu skilað greinargerð í málinu upphaflega.

Grímur svaraði því til að embættið hefði verið að fikra sig áfram með fimmtu greinina. Þá hefðu menn talið að tilgangur greinarinnar myndi mögulega ekki nást ef þeir settu þetta fyrr inn í málið.

Þess ber að geta að umrædd gögn eru í dag hluti af Aurum-málinu, en þau voru meðal annars lögð fram af verjendum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert