Hælisleitendur komnir í Víðines

Frá Víðinesi þar sem hælisleitendur búa nú tímabundið.
Frá Víðinesi þar sem hælisleitendur búa nú tímabundið. mbl.is/Árni Sæberg

Um fjörutíu hælisleitendur fluttu á mánudag inn í hús á Víðinesi sem Útlendingastofnun hefur tekið á leigu tímabundið. Þeir sem þar búa fjarri annarri byggð en hafa kost á einni skutluferð í Mosfellsbæ á dag til að komast í strætósamgöngur.

Rýma þurfti á dögunum hús í Bæjarhrauni þar sem hælisleitendur hafa búið, vegna veggjalúsar. Í kjölfarið var gamalt hjúkrunarheimili á Víðinesi í eigu borgarinnar leigt undir hælisleitendurna. Þórhildur Ósk Hagalín, upplýsingafulltrúi Útlendingastofnunar, segir að um tímabundið úrræði sé að ræða en stofnunin sé með húsið á leigu til áramóta.

Frétt Mbl.is: Munu rýma Bæjarhraun

Húsið er langt frá næstu byggð og á svæðinu er hvorki þjónusta né aðgengi að almenningssamgöngum. Þórhildur Ósk segir að boðið verði upp á skutluþjónustu frá Víðinesi inn í Mosfellsbæ til að tengja við strætisvagnasamgöngur á hverjum virkum degi.

„Það er svona skutla að morgni og svo síðdegis aftur til baka frá Mosfellsbæ niður í Víðines,“ segir hún.

Veggjalús fannst á tveimur hæðum í húsnæði fyrir hælisleitendur í Bæjarhrauni í Hafnarfirði sem hefur verið fyrsti viðkomustaður þeirra. Um miðjan mánuðinn sagði Þórhildur Ósk við Morgunblaðið að húsið yrði ekki tekið strax í notkun eftir að meindýraeyðir hefði lokið störfum þar, þar sem það tæki tíma að fá leyfi til starfseminnar, meðal annars frá slökkviliði og heilbrigðiseftirliti. 

Frétt Mbl.is: Veggjalús í húsnæði hælisleitenda

Undanfarið hafa um hundrað hælisleitendur gist á hótelherbergjum víðs vegar um borgina. Þórhildur Ósk segir að þar sem rýma hafi þurft Bæjarhraunið telji hún ólíklegt að fækkað hafi mikið í þeim hópi sem býr á hótelum.

Fyrirsjáanlegt er að minna framboð verði af hótelherbergjum nú í byrjun nóvember, ekki síst vegna tónlistarhátíðarinnar Iceland Airwaves. Þórhildur Ósk segir Útlendingastofnun ekki bóka mikinn fjölda herbergja fram í tímann. Ef framboðið sé minna á hótelum og gistiheimilum sé stundum eitthvað laust í öðrum úrræðum þegar úr þeim týnist og stundum sé leitað út fyrir höfuðborgarsvæðið.

Í ítrustu neyð ef skyndilega kæmi stór hópur hælisleitenda á sama tíma og húsnæðisúrræði eru erfið myndi Útlendingastofnun óska eftir fjöldahjálparstöð en það sé þó ekki nokkuð sem hún geri ráð fyrir nú.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert