Hafnar kröfu lögreglu um geðmat

Lögreglustöðin í Vestmannaeyjum.
Lögreglustöðin í Vestmannaeyjum. mbl.is/GSH

Hæstiréttur hefur hafnað kröfu lögreglustjórans í Vestmannaeyjum um að dómkvaddur verði matsmaður til að meta meðal annars geðheilbrigði mannsins, sem grunaður er um alvarlega líkamsárás og kynferðisbrot gegn 45 ára gamalli konu aðfaranótt laugardagsins 17. september.

Hæstiréttur staðfestir þar með úrskurð héraðsdómstóls Suðurlands, sem féll þann 14. október síðastliðinn.

Umfjöllun mbl.is: Ráðist á konu í Eyjum

Fram hefur komið að konan fannst illa haldin utan dyra, nakin, mjög köld með mikla áverka á andliti og líkama eftir ofbeldisverk.

Hefur maðurinn játað að hafa átt samskipti við konuna fyrir utan skemmtistað í bænum, og að hafa tekið hana niður og haldið henni, en neitað frekari átökum við hana.

Lagði til að geðlæknir yrði fenginn

Lögreglustjóri hafði lagt til að geðlæknir yrði fenginn til að meta persónulegar aðstæður mannsins, hegðun hans og fyrri brot, þroska og heilbrigðisástand og þá sérstaklega geðheilbrigði, að því er fram kemur í þeirri matsbeiðni sem reifuð er í úrskurði réttarins.

Af hálfu mannsins var þá bent á að matsbeiðninni væri ábótavant. Ekki komi þar fram hvað lögreglustjórinn hyggist sanna með matsgerð og óljóst sé hvað meta skuli, auk þess sem lagatilvísanir skorti í matsbeiðni.

Þá segir að sakborningi sé ekki skylt að veita atbeina sinn við rannsókn málsins eða að leggja lögreglu lið við að afla matsgerðar, sem mögulega verði svo notuð gegn honum á síðari stigum.

Árásin átti sér stað í Vestmannaeyjum aðfaranótt 17. september.
Árásin átti sér stað í Vestmannaeyjum aðfaranótt 17. september. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Matsbeiðnin ekki uppfyllt kröfur

Í staðfestum úrskurði héraðsdóms segir að matsbeiðni uppfylli ekki þær kröfur um skýrleika sem lög um meðferð sakamála kveða á um. 

„Kemur ekki fram neitt í matsbeiðni um hvaða þörf er á því að hið umbeðna mat verði framkvæmt og þá þykir ekki nægilega skýrt hvað meta skuli,“ segir meðal annars í úrskurðinum.

Þá verði heldur ekki séð að þörf sé á að dómkvaddur verði matsmaður til að fullnægja þessari skyldu lögreglu.

Sjá nánar á vef Hæstaréttar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert