„Í tísku að vera femínisti"

Una Torfadóttir menntaskólanemi, femínisti og ræðuskörungur.
Una Torfadóttir menntaskólanemi, femínisti og ræðuskörungur.

Framtíðin er björt ef marka má ungu kynslóðina sem tekur við keflinu. Una Torfadóttir menntaskólanemi og femínisti er ein þessara ungu kvenna sem er óhrædd við að taka pláss í samfélaginu. Hún var ein þeirra ræðukvenna sem hélt þrumuræðu á Austurvelli á kvennafrídeginum þar sem hún mótmælti harðlega kynbundnum launamun. 

„Það er margt mjög gott en líka alls konar sem mætti vera öðruvísi. Það sem mér finnst fallegast og best er hvað samstaðan er mikil. Það er í tísku að vera femínisti og maður finnur mikinn meðbyr. Aftur á móti gerir það líka það að verkum að þá krefst það ekki eins mikils að vera femínisti," segir Una Torfadóttir spurð út í jafnréttisbaráttuna í dag.

„Í rauninni getur hver sem er kallað sig femínista og flestir gera það því það er það „rétta“ í samfélaginu núna. Það eru samt ekki nógu margir sem beita sér raunverulega í þágu jafnréttis að minnsta kosti ekki eins mikið og þeir gætu gert,“ 

„Ég vildi negla þetta“

Una lét vel í sér heyra í ræðu sinni á Austurvelli á mánudag og sagði meðal annars: „Það velur engin kona að vera á lægri launum en karl. Ef jafnrétti væri einfalt val þá stæðum við ekki hér.“ Óhætt er að segja að ræðan hennar hafi verið með þeim kraftmeiri sem ómaði um Austurvöll. 

Frétt mbl.is: „Stolt­ar, sam­einaðar, óstöðvandi“

„Ég var rosalega stressuð. Ég hafði miklar áhyggjur af því að þetta kæmi allt öfugt út úr mér og virkaði ekki einlægt. Það hefði verið hræðilegt því reiðin er raunveruleg og fátt sem mér finnst jafn mikilvægt og þetta. Ég vildi negla þetta og var hrædd um að það myndi ekki takast en svo gekk þetta bara vel,“ segir Una og brosir spurð hvernig henni hafi liðið að halda ræðu á troðfullum Austurvelli.  

Una bendir á að samstöðufundurinn á mánudag hafi verið skýrt dæmi um mikilvægi þess að sýna í verki að fólk er tilbúið að berjast fyrir jafnrétti. Hún segir margt þokast í rétta átt í þessum efnum. Í jafnréttisbaráttunni er netið og ýmsar netbyltingar nú helst notaðar og hafa gefi góða raun, að mati Unu. „Það er auðveldasta leiðin til að taka þátt og er mjög mikilvægt því þar er hún sýnileg öllum.“ Hún segir erfitt að leiða það hjá sér ef það verður allt vitlaust á Facebook eða Twitter.

Fjölmennt var á Samstöðufundi á Austurvelli.
Fjölmennt var á Samstöðufundi á Austurvelli. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

 „Núna er mikilvægt að fólk kjósi í þágu jafnréttis. Það er svo mikið vald sem fólk hefur þar og það þarf að kjósa af ábyrgð,“ segir hún ábúðafull spurð frekar út í jafnréttisbaráttuna. Una er sjálf 16 ára og því eru tvö ár þangað til hún fær kosningarétt. „Mér finnst það svolítið glatað en ég geri það sem ég get fram að því,“ segir hún og hlær. 

Barátta krefst sjálfsöryggis

„Það er mikill kraftur og baráttuandi í þessari kynslóð. En við erum öll ennþá eins og unglingar hafa alltaf verið. Rosalega föst í glímunni við að átta okkur á því hver við erum. Það er flókið. Til þess að vera tilbúinn í stóran slag eins og jafnréttisbaráttu þarf maður að vera mjög sjálfsöruggur. Maður þarf að vera búinn að átta sig á því hver maður er og fyrir hvað maður stendur. Það eru alls ekkert allir unglingar búnir að átta sig á því og það er ekkert skrýtið,“ segir Una spurð hvernig hennar kynslóð berjist fyrir jafnrétti.  

Una er virkur femínisti og tekur þátt í ýmsum verkefnum þeim tengdum. Una var ein þeirra sem stóð að Elsku stelpur gjörningnum sem var valið besta atriðið í Skrekk hæfileikakeppni grunnskóla í fyrra og tók þátt fyrir hönd Hagaskóla. Una segir mikilvægt að fólk nýti alla þá hæfileika sem það búi yfir til að láta skoðanir sínar í ljós líkt og hópurinn gerði í umræddu atriði. Í því var krafðist jafn­rétt­is í fem­in­ísku slamm­ljóði og dans­atriði. 

Báðum ekki, við kröfðumst. Sigurvegarar úr hópnum Elsku stelpur komu …
Báðum ekki, við kröfðumst. Sigurvegarar úr hópnum Elsku stelpur komu úr Hagaskóla og þótti atriði þeirra bera af á lokakvöldi Skrekks. Una stendur í forgrunni myndarinnar með míkrófóninn við hönd þar sem skilaboð hennar skiluðu sér. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Leiklistin „skemmtilegasta listformið“

Una hóf skólagöngu í Menntaskólanum í Reykjavík í haust á málabraut. Henni líkar dável í skólanum og segist eiga fullt í fangi með að ná tökum á þessum nýja og skemmtilega veruleika.  

Unu er greinilega margt til lista lagt en hún er í stjórn Herranætur, leikfélags MR. Hópurinn undirbýr af fullum krafti leiksýningu sem verður sett upp í vor. „Já,“ svarar hún afdráttarlaust spurð hvort í henni blundi leikari. „Þetta er skemmtilegasta listform sem ég veit um,“ segir hún.

Einn af töfrum leiklistarinnar segir hún felast í því að það er hægt að koma svo mörgu til skila. Hún viðurkennir að hafa alltaf haft mikinn áhuga á leik- og sönglist og segist hafa sungið frá því hún muni eftir sér. Í gegnum tíðina hefur hún farið mikið í leikhús með foreldrum sínum þeim Svandísi Svavarsdóttur þingmanni og Torfa Hjartarsyni.  

Hér er hægt að sjá ræðu Unu á Austurvelli:

Góður andi var á Austurvelli í gær.
Góður andi var á Austurvelli í gær. Golli / Kjartan Þorbjörnsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert