Leiðindaspá í kortunum

Öxnadalsheiði
Öxnadalsheiði mbl.is/Gúna

Gera má ráð fyrir éljum eða snjómuggu með tilheyrandi hálku á fjallvegum á Vestfjörðum síðar í dag, en lægð gengur nú yfir landið frá Faxaflóa til norðausturs. Spáin er svipuð fyrir Norðurland í kvöld, til að mynda á Þverárfjalli og Öxnadalsheiði.

Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands má búast við því að vindur snúist til vestlægrar áttar víðast hvar á landinu og fylgir henni skúraveður um allt sunnan- og vestanvert landið.

Næsta lægð að koma frá Nýfundnalandi

Með suðurströndinni má búast við allt að 20 m/s en annars er vindhraði almennt 8-15 m/s.
Næsta lægð kemur yfir hafið frá Nýfundnalandi í nótt og ætlar samkvæmt nýjustu spám að ganga upp með suðausturströndinni. Hún ber ekki með sér veðurofsa en viðheldur vestanáttinni og kælir talsvert. Því má búast við að skúrirnar verði að slydduéljum eða éljum í nótt og á morgun.

Veðurfræðingur Vegagerðarinnar segir að seint í kvöld og í nótt frysti víðast hvar í 200-300 metra og þá má reikna með éljum á Hellisheiði, Mosfellsheiði, Snæfellsnesi Bröttubrekku og Holtavörðuheiði.

Færð og aðstæður

Hálkublettir eru á nokkrum fjallvegum á Vestfjörðum. Á Norðurlandi eru hálkublettir á Öxnadalsheiði, Fljótsheiði, Mývatnsheiði og Dettifossvegi sem og á Mývatns- og Möðrudalsöræfum og Vopnafjarðarheiði. Hálkublettir eru einnig frá Tjörnesi yfir Hófaskarð og Hálsa og að Raufarhöfn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert