Merki frá neyðarsendi skútu

Landhelgisgæslunni barst um fimm í morgun merki frá neyðarsendi seglskútu sem saknað hefur verið frá því í sumar milli Portúgals og Azoreyja. Staðsetning neyðarsendisins var skammt suðvestur af Grindavík og var þyrla Landhelgisgæslunnar send á vettvang.

Um klukkan sex í morgun fann áhöfn þyrlunnar neyðarsendinn uppi í fjöru austur af Hópsnesi.  Engin önnur merki um skútuna var að finna en skoðað verður með frekari athugun á svæðinu í birtingu, samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni. Þyrlan leitaði nærliggjandi fjörur án árangurs snemma í morgun en leitin er komin í hendur lögreglunnar á Suðurnesjum sem mun hafa yfirumsjón með leit í fjörum á Reykjanesi.

Í frétta franska blaðsins Le Parisien frá 24. ágúst kemur fram að ekkert hafi þá heyrst í skipstjóra skútunnar, Jo Le Goff, 64 ára, en hann var einn um borð í skútunni. Le Goff lagði af stað úr höfn í Brest á Bretagne 5. júní á skútu sinni Red Héol 5. júní og kom til hafnar í Leixões, skammt frá Portó í Norður-Portúgal 7. júlí. Þaðan ætlaði hann að fara til Azoreyja en ekkert hefur spurst til hans síðan. 

Parisien segir að skipstjórinn hafi sent bróður sínum reglulega skilaboð á ferðalögum sínum en þetta var ekki í fyrsta skipti sem hann ætlaði að sigla einn til Azoreyja. Þegar ekkert heyrðist frá Goff hafði bróðir hans samband við Landhelgisgæslunnar í Pas-de-Calais en ekkert var vitað um ferðalag skútunnar. Þar sem gott veður var á þessum slóðum er talið líklegast að skipstjórinn hafi annaðhvort fallið frá borði, veikst eða slasast.

Frétt Le Parisien um hvarf skútunnar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert