#FreetheNipple: Gleði og systralag

Fólk kom saman á Austurvelli þegar eitt ár var liðið …
Fólk kom saman á Austurvelli þegar eitt ár var liðið frá upphafi #FreetheNipple byltingarinnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Okkar fannst forvitnilegt að sjá hvernig hugmyndafræðin á bak við #FreetheNipple þróaðist á meðan á þessari byltingu stóð hjá stúlkunum og  konunum sem tóku þátt. Þetta byrjar sem tilfinning eða upplifun á því að gerðar eru væntingar til manns, eða lagt á mann mat sem maður er ekki sáttur við og er ekki í samræmi við það sem manni finnst sjálfum“ segir Annadís Gréta Rúdólfsdóttir, dósent í aðferðafræði rannsókna við menntavísindasvið Háskóla Íslands.

Hún heldur erindi ásamt Ástu Jóhannsdóttur, doktorsnema og stundakennara í félagsfræði HÍ, sem nefnist #FreetheNipple: Gleði, samstaða og systralag, á Þjóðarspegli Háskóla Íslands á föstudag. Erindið er í málstofu sem Hið íslenzka ástarrannsóknarfélagar stendur fyrir og verður á Háskólatorgi 103 frá kl. 9-10.45.

Í upphafi ársins hófu þær rannsóknir #FreetheNipple sem átti sér stað vorið 2015 þegar fjöldi kvenna frelsaði geirvörtuna opinberlega eins og frægt er orðið. Þær skoða hvað kom þessu feminíska átaki af stað og varð þess valdandi að ungar konur tóku sig saman og fóru að mótmæla, þróun þess og eftirleik. Fjölmiðlar höfðu mikinn áhuga á viðburðinum og til grundvallar að greiningunni orðræðugreindu þær 60 fréttir, greinar og blogg á einu ári frá tímabilinu 25. mars 2015 til 26. mars 2016.

Annadís bendir á að í mótmælunum var tvískinnungurinn gagnvart líkama ungra kvenna í forgrunni og hann birtist einkum í líkamsskömm. Hinn ungi kvenlíkami er stöðugt í sjónmálinu þar sem hann er veginn og metinn út frá fegurðar- og siðgæðisstöðlum karlmiðaðs samfélags. Það er meðal annars lagt á herðar ungu kvennanna að bera ábyrgð á að líkamar þeirra verði ekki viðfang stafræns kynferðisofbeldis og það er ofbeldi sem er áþreifanlegur hluti af reynsluheimi þeirra.

Valdeflandi að taka þátt 

 „Margar tala um hvað það hafi verið valdeflandi að taka þátt. Þær eru reiðar, sem er mikilvægt, en þær finna líka samstöðu hver með annarri. Það ríkir gleði í samstöðunni og systralaginu eins og sjá má á af fjölda mynda af þessum degi,“ segir Annadís.

Annadís segir brjóstabyltinguna þegar hafa haft áhrif. Hins vegar eigi það eftir að koma betur í ljós þegar frá líður hvort hún hafi haft áhrif á ríkjandi hugmyndir samfélagsins um líkama kvenna.

„Þetta er hluti af einhverri undiröldu,“ segir hún og bendir á hversu há prósenta þjóðarinnar tók til dæmis þátt í Druslugöngunni í ár þar sem skömminni er vísað aftur til föðurhúsanna. „Gegnumgangandi er verið að vísa til tilfinninga eins og skammar. Að konur eigi að skammast sín fyrir líkama sína. Þær vilja breyta því og líða vel með eigin líkama.“

Ungu konurnar notast bæði við nýfrjálshyggju orðræðu þar sem sjálfsmyndin er sköpuð í gegnum val okkar, sem og róttæka femíníska orðræðu þar sem konurnar upplifa samstöðu í baráttu sinni gegn kúgun feðraveldis, segir Annadís. Þær setja byltinguna í samhengi við hugmyndir Claire Hemmings um það hvernig femínískt hreyfiafl verður til og hvað viðheldur því. 

Þær Annadís og Ásta héldu erindi um rannsóknina í Bretlandi í sumar sem vakti töluverða athygli. Þar sýndu þær meðal annars hvernig fjölmiðlar notuðu Twitter-færslur í fréttaflutningi sínum sem vakti nokkra eftirtekt. Samfélagsmiðlarnir voru mikilvægur vettvangur fyrir ungu konurnar og aðrar konur sem tóku þátt í #FreetheNipple, bæði til að ræða reynslu sína og sameiginlega reiði og líka til að koma óánægju sinni á framfæri. 

Þær reikna með að rannsókninni ljúki innan skamms.

Annadís G. Rúdólfsdóttir
Annadís G. Rúdólfsdóttir
Ásta Jóhannsdóttir
Ásta Jóhannsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert