Tilboð í Jökulsárlón undir væntingum

Tilboð í jörðina Fell við Jökulsárlón eru lægri en landeigendur …
Tilboð í jörðina Fell við Jökulsárlón eru lægri en landeigendur vonuðust til. mbl.is/RAX

Þrjú tilboð bárust í jörðina Fell við Jökulsárlón, en tilboðsfrestur rann út í gær. Hæsta tilboðið hljóðar upp á 1,17 milljarða og segir Ólafur Björnsson, hæstaréttarlögmaður hjá Lögmönnum á Suðurlandi sem fer með sölu jarðarinnar, öll tilboðin hafa verið lögð fram af íslenskum fjárfestum.

„Þetta ferli er nú komið á lokastig og það voru þrjú tilboð lögð fram í dag á fundi hjá sýslumanni,“ segir hann og kveður tilboðunum hafa fylgt staðfesting upp á að fjármögnun lægi fyrir. Á fundi hjá sýslumanni í lok ágúst mat sýslumaður stöðuna svo að einungis einn tilboðsgjafi hefði lagt fram nægi­lega staðfest­ingu á fjár­mögn­un eða eigið fé líkt og upp­boðsskil­mál­ar kváðu á um og var málinu því frestað um óákveðin tíma.

Tvö tilboð voru lögð fram hjá sýslumanni í dag, til viðbótar við 750 milljóna króna tilboð Landsbréfa sem lagt var fram í ágúst. „Það liggur fyrir að hæsta boð er 1.170 milljónir, síðan er annað boð aðeins lægra og þriðja boðinu upp á 750 milljónir hafði áður verið greint frá.“ 

Ólafur segir sýslumann hafa frestað frekari fundi um málið til að skoða fram komin boð og til að gefa landeigendum tækifæri til að kynna sér þau. Tilboðin eru að hans sögn nokkuð undir væntingum landeigenda, enda hafi verið nefndar tölur upp á allt að tvo milljarða króna og er hæsta tilboð því tæplega helmingi lægra.

„Það verður fundað aftur um málið 4. nóvember og þá gefst landeigendum kostur á að ganga inn í boðið og gera betra boð ef þeir svo kjósa,“ segir Ólafur. Taki sýslumaður einhverju boði í jörðina eigi ríkið forkaupsrétt sem það hafi viku til að nýta sér.

Fram að þeim tíma hafa uppboðsbeiðendur hins vegar enn möguleika á að afturkalla uppboðsbeiðnina „og þá fellur allt dautt niður ef þeir eru ósáttir við ráðagerð sýslumanns eða framkomin boð,“ segir Ólafur og kveður vissulega mögulegt að slíkt gerist þar sem hæsta boð sé undir væntingum landeigenda.

„Þannig að það verður bara að koma í ljós hvort þeir sætta sig við þetta.“

Ólafur segir tilboðsgjafa alla íslensk fjárfestingar- og eignarhaldsfélög, en ekki verði gefið upp að svo stöddu hverjir hafi gert tilboð í jörðina. Hann segir tilboðsgjafa ekki þurfa að gefa upp hvort þeir séu milliliður í kaupum á jörðinni, né heldur hvaða hugmyndir þeir hafi um nýtingu hennar.

„Það liggur s.s. fyrir að þarna er starfsemi í ferðaþjónustu og þangað koma um 500.000 manns á ári. Þannig að í eðli sínu eru menn að horfa til uppbyggingar á svæðinu,“ segir hann og kveður nýtt skipulag fyrir svæðið gera ráð fyrir að þar megi reisa veitinga- og verslunaraðstöðu, bílastæði og fleira.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert