Valið stóð á milli bankaráns eða lífláts

Sandra Sigrún var dæmd í 37 ára fangelsi fyrir aðild …
Sandra Sigrún var dæmd í 37 ára fangelsi fyrir aðild að tveimur bankaránum í Virginíu í Bandaríkjunum árið 2013. Ljósmynd/aðsend

Aðstandendur 26 ára gamallar íslenskrar konu sem hlaut 37 ára fangelsisdóm í Bandaríkjunum fyrir tvö bankarán hafa komið af stað söfnun svo hægt sé að kanna möguleika á endurupptöku málsins fyrir bandarískum dómsstólum. Dómurinn er sá þyngsti sem Íslendingur hefur hlotið, svo vitað sé.

DV fjallaði um mál Söndru 26. ágúst sl.

Sandra Sigrún framdi tvö bankarán í sitt hvorri sýslunni í Virginíuríki í ágúst 2013 og hlaut hún því tvo aðskilda dóma fyrir ránin tvö, 18,7 ár fyrir rán í banka í Norfolk og önnur 18,7 ár fyrir rán í banka í Chesepeake. Fjölskylda hennar  er gríðarlega ósátt við þá málsmeðferð sem Sandra Sigrún hefur fengið fyrir dómstólum og krefst þess að málið verði tekið upp að nýju.

„Það er réttur Söndru að mál hennar verði tekið upp aftur. Að hún hafi góðan lögfræðing sér við hlið og sé þá dæmd á grundvelli allra þeirra upplýsinga sem koma þessu máli við,“ segir Aðalheiður Ósk Þorsteinsdóttir, frænka Söndru Sigrúnar, í samtali við mbl.is.

Bar engin vopn en var ákærð fyrir vopnaburð

Sandra Sigrún var ákærð fyrir rán, samráð um að fremja rán, notkun skotvopna í glæpsamlegum tilgangi og skotvopnaeign í ólöglegum tilgangi, þrátt fyrir að hafa ekki verið með vopn á sér. Sandra Sigrún afplánar dóm sinn í Fluvanna Correctional Center for Women, sem er ríkisrekið kvennafangelsi í Troy, rúmlega 90 kílómetra frá höfuðborg Virginíu, Richmond.

Sandra Sigrún er dóttir Margrétar og Bill Fenton, en faðir hennar gegndi herþjónustu á Keflavíkurflugvelli. Sandra Sigrún fæddist á Íslandi en hefur búið í Virginia Beach í Bandaríkjunum frá því hún var þriggja ára gömul. Í viðtali við móður Söndru Sigrúnar við DV frá því í ágúst kemur fram að Sandra Sigrún varð fyrir kynferðisofbeldi á unglingsaldri. Sú reynsla, ásamt bílslysi sem hún lenti í á unglingsaldri, gerðu það að verkum að hún leiddist út í fíkniefnaneyslu og afbrot.

Bankaránin tvö áttu sér stað þann 13. ágúst 2013. Bandarískir fjölmiðlar greina frá því að ung kona hafi gengið inn í útibú í banka í Norfolk og krafið gjaldkerann um peninga og gefið í skyn að hún væri með vopn. Fyrir utan bankann beið hennar 33 ára karlmaður og saman óku þau yfir til Chesepeake þar sem seinna ránið var framið. Maðurinn sem um ræðir mun hafa útvegað Söndru Sigrúnu heróín á þessum tíma, að því er fram kom hjá DV.

Bankarán eða líflát

Aðalheiður Ósk segir að ekki hafi verið tekið tillit til sérstakra aðstæðna Söndru Sigrúnar. Hún hafi verið neydd til að taka þátt í ráninu.

„Í júlí 2013 kom sá sem seldi Söndru heróín heim til hennar og náði í hana, hún taldi sig vera að kaupa meira efni. Hann gaf henni efni og keyrði með hana dágóða stund áður en hann fór með hana að banka. Þar tók hann fram byssu og sagði að ef hún færi ekki þar inn og rændi bankann myndi hann drepa hana ásamt foreldrum hennar og syni. Þennan leik endurtók hann í öðrum banka og tók allan peninginn fyrir bæði ránin.“

Sandra Sigrún ásamt syni sínum, Rylan, sem er fæddur árið …
Sandra Sigrún ásamt syni sínum, Rylan, sem er fæddur árið 2011. Ljósmynd/aðsend

Sandra var handtekin samdægurs og var mjög samvinnuþýð við lögregluna að sögn Aðalheiðar Óskar. „Sandra gaf upp mikilvægar upplýsingar sem urðu til þess að sá sem hafði hótað henni lífláti náðist tveimur sólarhringum seinna, með byssuna og allan peninginn. Sandra var með mjög lélega lögfræðinga í þessum málum. Þeir réðu ekki við þessi mál og því fór sem fór.“

Binda vonir við endurupptöku málsins

Nýlega kom í ljós að maðurinn sem var handtekinn ásamt Söndru Sigrúnu í tengslum við ránin var fundinn sekur um að hafa framið morð árið 2007, að því er fram kom hjá DV. Vonast fjölskyldan til þess að þessar upplýsingar muni ýta undir hugsanlega endurupptöku málsins.

„Ef engu verður breytt mun Sandra sitja í fangelsi þar til hún verður rúmlega 60 ára,“ segir Aðalheiður Ósk. Fjölskyldan hefur hafið söfnun fyrir endurupptöku á máli Söndru Sigrúnar í Bandaríkjunum.

Hægt er að leggja málefninu lið með því að leggja inn á söfnunarreikning 0565-26-130260, kt. 081062-5879.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert