„Einfaldlega glórulaus lánveiting“

Saksóknari í héraðsdómi
Saksóknari í héraðsdómi mbl.is/Árni Sæberg

Tölvupóstsamskipti Jóns Ásgeirs Jóhannessonar við fyrrverandi bankastjóra Glitnis sýna að hann knúði áfram samþykki fyrir lánamálum innan bankans. „Hann hafði mikil, bein og óeðlileg afskipti af bankanum.“ Þetta kom fram í málflutningi saksóknara í Aurum-málinu sem fram fór í gær. Fyrir utan umboðssvik sagði saksóknari starfsmenn hafa brotið lög um fjármálafyrirtæki, hlutafélagalög og bankaleynd.

Aðalmeðferð málsins hefur nú staðið yfir í eina viku og er lokadagur hennar í dag þar sem málflutningur verjenda fer fram. Í málinu ákærði saksóknari þá Lárus Welding, fyrrverandi bankastjóra, og Magnús Arnar Arngrímsson, fyrrverandi framkvæmdastjóra fyrirtækjasviðs, fyrir umboðssvik og Jón Ásgeir og Bjarna Jóhannesson, viðskiptastjóra fyrirtækja Jóns Ásgeirs, fyrir hlutdeild í umboðssvikum þegar Glitnir lánaði sex milljarða til félagsins FS38 sem var dótturfélag Fons. Var lánið veitt til að kaupa hlut í skartgripakeðjunni Aurum af Fons, en auk þess fóru tveir milljarðar til Fons, þar af einn milljarður áfram til Jóns Ásgeirs.

Mikil aukning útlána eftir stjórnarskipti

Í málflutningi sínum fór saksóknari yfir upphaf málsins og rakti það til forstjóraskiptanna árið 2007 þegar Lárus Welding tók við af Bjarna Ármannssyni. Sagði saksóknari að þarna hefði Jón Ásgeir í gegnum félög sín komið fyrir nýjum stjórnarmönnum sem tengdust Fl Group. Í framhaldinu hefðu útlán til hans og Fons aukist gríðarlega. Sýndi hann línurit þar sem fram kom að útlán til Jóns Ásgeirs og tengdra félaga hefðu aukist úr 1.000 milljónum evra upp í 2.000 milljónir evra og í tilfelli Fons hefðu útlánin hækkað úr 50 milljónum evra í 500 milljónir evra.

„Þar átti að slá út Stím“

Þá rifjaði hann upp tengingu þessa máls við Stím-málið þar sem Fons hafði tapað miklum upphæðum. Sagði saksóknari að tölvupóstar sýndu að Jón Ásgeir átti hlut í Stím-málinu, en þar hafi Pálma Haraldssyni í Fons verið lofað skaðleysi. Sagði saksóknari að upphaflega hefði Aurum-lánið verið sett fram sem fjögurra milljarða lánveitingu vegna kaupanna á Aurum, en vegna taps Fons á Stím hefði lánið verið hækkað í sex milljarða. „Þar átti að slá út Stím,“ sagði saksóknari.

Fór hann yfir lánveitinguna sjálfa og rakti þar hvernig Jón Ásgeir hefði þrýst á lánið reglulega og sagði saksóknari hann þar hafa nýtt sér stöðu sína sem stærsta eiganda til að ná fram máli sem starfsmenn bankans hefðu verið mótfallnir að ganga frá. „Það er engum blöðum að fletta að Jón Ásgeir knýr þetta mál áfram,“ sagði saksóknari. „Jón gat ekki stýrt honum, en hann sendi honum erindi sem voru honum [Lárusi] fyrirmæli,“ sagði hann.

Fór út fyrir öll viðmið um veðþekju

Sagði saksóknari að alveg sama hefði verið hvernig málið væri reiknað út eftir lánveitinguna. Hún hefði verið komin strax í mínus fyrir bankann. Sagði hann að rekstur Aurum hefði þurft að breytast stórkostlega og virði bréfanna hækka allt að tvöfalt svo lánveitingin væri hagstæð bankanum. Þá væri jafnvel ekki tekið mið af fjármögnunarkostnaði og vaxtakostnaði.

Vegna þessa sagði saksóknari að við lánveitinguna hefði verið farið út fyrir öll viðmið bankans um veðþekju, þar sem í raun hefði verið að lána fyrir fullu kaupverði og það til félags sem var eignalaust. Þá gerði saksóknari lítið úr þeim verðhugmyndum sem settar voru fram um verðmæti Aurum við lánveitinguna og sagði þau verðmöt sem vörnin hefði vísað til ótæk sem slík. „Það er hæpið að kalla þetta verðmöt,“ sagði saksóknari, en hann vísaði til þess að öll mötin sem vörnin notaði hefði í raun verið byggð á gögnum um fimm ára rekstraráætlun Aurum sem kom frá Baugi, sem var stærsti eigandi Aurum og stór eigandi í FL group.

Tveir milljarðar til Fons og Jóns Ásgeirs

Með lánveitingunni sagði saksóknari að útflæði fjármuna frá Glitni hefði verið tveir milljarðar sem hefðu skilað sér sem peningar til Fons og Jóns Ásgeirs. Þetta hefði verið á þeim tíma þegar staða Fons hjá bankanum hefði verið nokkuð slæm og vaxtagjalddögum hefði verið frestað. „Þetta var einfaldlega glórulaus lánveiting,“ sagði saksóknari.

Aðkoma Jóns Sigurðssonar „að öllu leyti óeðlileg

Saksóknari rifjaði einnig upp aðkomu Jóns Sigurðssonar, fyrrverandi varastjórnarformanns Glitnis, að málinu, en í tölvupósti býður hann Jóni Ásgeiri aðstoð sína við að koma málum í gegn hjá bankanum. Sagði saksóknari að með þessu hefði Jón brotið gegn reglum um fjármálafyrirtæki þar sem stjórnarmenn í fjármálafyrirtækjum skyldu ekki hafa afskipti af einstaka lánamálum. Þá kæmi þetta einnig fram í siðareglum Glitnis. „Aðkoma Jón Sigurðssonar var að öllu leyti óeðlileg,“ sagði hann.

Sagði saksóknari að með því að veita lánið hefðu stjórnendur Glitnis ekki aðeins brotið umboðssvikaákvæði almennra hegningarlaga heldur einnig lög um hlutafélög og þá hefði Bjarni brotið trúnaðarskyldu sína sem starfsmaður bankans þegar hann sendi út gögn um Fons til Jóns Ásgeirs án þess að hafa fengið til þess heimild forsvarsmanna Fons.  

Verjendur og ákærðu í málinu.
Verjendur og ákærðu í málinu. mbl.is/Ófeigur
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert