Geymir minningu kynslóða

Miðnæturmessa í Dómkirkjunni á jólanótt.
Miðnæturmessa í Dómkirkjunni á jólanótt. mbl.is/Golli

Dómkirkjan í Reykjavík á 220 ára afmæli sunnudaginn 30. október næstkomandi. Af því tilefni verður hátíðarmessa þann dag og önnur sunnudaginn 6. nóvember. Eftir messurnar verður boðið í veislukaffi í safnaðarheimilinu.

Saga Dómkirkjunnar er merkileg. Karl Sigurbjörnsson biskup bendir á að hún sé fyrsta opinbera byggingin í Reykjavík fyrir utan tukthúsið, sem hafi síðan fengið annað hlutverk. „Þessi bygging hefur hins vegar nákvæmlega sama hlutverk og hún hafði fyrir 220 árum, þannig að þetta hús geymir minningu kynslóðanna í landinu,“ segir hann.

„Í 220 ára sögu sinni hefur hún helgast af hljómum söngs og bæna, séð börn borin til skírnar, umvafið brúðhjón á brúðkaupsdegi og unglinginn sem vinnur fermingarheit sitt, fylgt þeim sem kvödd eru hinsta sinni. Þetta hefur ekkert breyst. Ekkert hús og ekkert samfélag í landi hér getur sýnt fram á slíkt órofa samhengi.“

Fjölbreytt dagskrá

Fyrsta slökkvistöð bæjarins var í skrúðhúsi Dómkirkjunnar og til þess að minna á það tóku slökkviliðsmenn þátt í messu í kirkjunni 9. október síðastliðinn.

Fjölskylduguðsþjónusta með þátttöku kórs Menntaskólans í Reykjavík og fermingarbarna var í Dómkirkjunni sunnudaginn 23. október. Karl rifjar upp að Latínuskólinn, forveri MR, hafi fylgt biskupstólnum úr Skálholti til Reykjavíkur og ávallt hafi verið mikið samband á milli þessara tveggja stofnana. „Við horfðum til framtíðar og tengdum guðsþjónustuna Degi Sameinuðu þjóðanna og friðarstarfi í heiminum,“ segir hann.

Í gærkvöldi var samtal í safnaðarheimilinu í tilefni tímamótanna, þar sem Helgi Ingólfsson sagnfræðingur sagði frá tengslum MR og Dómkirkjunnar í gömlu Reykjavík. „Það hefur verið ýmislegt tilhald í tengslum við afmælið,“ segir Karl og bendir á að fram undan séu tvær hátíðarmessur auk Sálmasyrpu.

Séra Þórir Stephensen, fyrrverandi dómkirkjuprestur, prédikar og fyrrverandi prestar Dómkirkjunnar þjóna í hátíðarmessunni á sunnudag. Viku síðar prédikar biskup Íslands, frú Agnes Sigurðardóttir, við hátíðarmessu þar sem dómkirkjuprestar, sr. Hjálmar Jónsson og sr. Sveinn Valgeirsson, þjóna. Mánudagskvöldið 31. október verður svonefnd Sálmasyrpa í kirkjunni. Margrét Bóasdóttir kynnir og kennir gamla og nýja sálma og er dagskráin, sem hefst klukkan 20, liður í tónlistardögum Dómkirkjunnar. „Tónlistardagarnir mótast af þessum tímamótum,“ segir Karl.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert