Hærra tilboð þarf í Fell samdægurs

Margir hafa sýnt jörðinni Fell, sem nær yfir hluta Jökulsárlóns, …
Margir hafa sýnt jörðinni Fell, sem nær yfir hluta Jökulsárlóns, áhuga. mbl.is/Ómar Óskarsson

Fari svo að sýslumaður ákveði hinn 4. nóvember að taka einhverju af tilboðunum sem hafa verið gerð í jörðina Fell við Jökulsárlón, hafa landeigendur þann sama dag til að gera hærra tilboð til að leysa til sín eignina.

Þetta segir Ólafur Björnsson, lögmaður, sem hefur aðstoðað sýslumann við öflun tilboða.

Íslenska ríkið hefur þá eina viku til að ákveða hvort það neyti forkaupsréttar að eigninni, eða til 11. nóvember. Þann dag yrði endanlega ljóst hvort sýslumaður myndi ákveða að ganga til samninga við einhvern þeirra sem bauð í jörðina eða hvort ríkið neyti forkaupsréttar að henni.

Fram kom í Morgunblaðinu í morgun að fjárfestingafélag í eigu Skúla G. Sigfússonar, eiganda Subway-veitingahúsakeðjunnar, hafi boðið best í jörðina, eða 1.170 milljónir króna.

Frétt mbl.is: Skúli í Subway með hæsta tilboð í Fell

Ríkið fylgist vel með 

Aðspurður segist Ólafur ekki vita hvort ríkið ætli að neyta forkaupsréttar að jörðinni. Engu hafi verið svarað um það en að vel sé fylgst með málinu þar á bæ.

Frétt mbl.is: Ríkið fylgist með sölunni 

Ef landeigendurnir sem kröfðust uppboðs sætta sig ekki við tilboðin sem eru uppi geta þeir dregið uppboðskröfuna til baka. Hafa þeir tíma til 11. nóvember til þess. Aðrir landeigendur geta þá lagt fram nýja kröfu um uppboð til að ljúka málinu. 

Meirihluti Jökulsárlóns er þjóðlenda. Jörðin Fell, sem á land að …
Meirihluti Jökulsárlóns er þjóðlenda. Jörðin Fell, sem á land að lóninu að austan og hluta lónsins, er til sölu. mbl.is/Ómar Óskarsson

Stjórnarskipti gætu sett strik í reikninginn 

Alþingiskosningar fara fram á laugardaginn og því gætu hugsanleg stjórnarskipti sett strik í reikninginn varðandi aðkomu stjórnvalda að málinu.

Fari svo að núverandi ríkisstjórn muni sitja sem starfsstjórn í einhvern tíma á meðan stjórnarmyndunarviðræður standa yfir, mun hún varla hafa umboð til að taka stórar ákvarðanir eins og þá sem snýr að kaupum á Felli, samkvæmt heimildum mbl.is. 

Í nátt­úru­vernd­ar­lög­um kemur fram að rík­is­sjóður skuli hafa for­kaups­rétt að jörðum og öðrum land­ar­eign­um sem eru að hluta eða að öllu leyti á nátt­úru­m­inja­skrá, að þeim aðilum frá­gengn­um sem veitt­ur er for­kaups­rétt­ur með jarðalög­um.

Alþingiskosningar verða á laugardaginn.
Alþingiskosningar verða á laugardaginn. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert