Starfsleyfi kísilverksmiðju fellt úr gildi

Frá Helguvík.
Frá Helguvík.

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur fellt úr gildi ákvörðun Umhverfisstofnunar um að veita Thorsil ehf. starfsleyfi fyrir rekstri kísilverksmiðju á iðnaðarsvæðinu í Helguvík frá því í fyrra. Frestur til að skila inn athugasemdum var rangt út reiknaður að mati nefndarinnar. 

Í frétt á vef Umhverfisstofnunar er sagt frá úrskurði úrskurðarnefndarinnar en með honum er ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 11. september 2015 um starfsleyfið felld úr gildi.

Frestur til að koma að athugasemdum var rangt út reiknaður að mati nefndarinnar miðað við birtingu auglýsingar í Lögbirtingablaðinu og telst fjórum dögum of stuttur miðað við átta vikna athugasemdafrest. Frestur til að koma að athugasemdum var reiknaður út frá birtingu auglýsingar á heimasíðu stofnunarinnar.

„Í reglugerð er kveðið á um að auglýsa skuli tillögu að starfsleyfi með tryggum hætti s.s. í dagblaði eða staðarblaði. Umhverfisstofnun þykir þetta miður og mun tafarlaust bæta úr verklagi. Úrskurðurinn gefur ekki til kynna að starfsleyfið sé haldið efnislegum ágöllum. Umhverfisstofnun undirbýr nú nýja auglýsingu starfsleyfisins,“ segir á vef Umhverfisstofnunar.

Tilkynningin á vef Umhverfisstofnunar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert