Stormur og snjókoma á kjördag

Veðurspáin fyrir hádegi á laugardag, eins og hún leit út …
Veðurspáin fyrir hádegi á laugardag, eins og hún leit út um miðnætti á fimmtudag.

Það gengur á með skúrum eða éljum á morgun og má búast við svipuðu veðri og var í dag. Það lægir svo og léttir til annað kvöld, að sögn Helgu Ívarsdóttur, veðurfræðings á vakt á Veðurstofu Íslands. Það frystir þó víða í kvöld og má því búast við ísingu á vegum í fyrramálið.

Á vef Vegagerðarinnar er bent á að éljahryðjur berist nú af hafi úr suðvestri og þeim fylgi hálka á fjallvegum m.a. Hellisheiði og Mosfellsheiði. Á láglendi sé hætt við krapa á vegum framan af, en hvítt geti svo orðið á mörgum veginum suðvestan- og vestanlands. 

Veðurvefur mbl.is

Á laugardag, er landsmenn ganga að kjörkössunum, má búast við austan og suðaustan hvassviðri og jafnvel stormi á sumum stöðum við suður- og vesturströndina. Vindhraði verður á bilinu 15-23 metrar. „Það byrjar suðvestanlands, þar sem það gæti byrjað á snjókomu, en fer þó fljótt yfir í slyddu og rigningu,“ segir Helga og kveður lægja á suðuvesturhorninu er líður á daginn.

Hún mælir hins vegar með að á Norður- og Austurlandi mæti menn snemma á kjörstað, enda verði fínasta veður þar fram að hádegi. „Þar byrjar síðan að snjóa og fer svo yfir í slyddu og loks rigningu á laugardagskvöldið,“ segir hún og bætir við að spáð sé rigningu á öllu landinu þá um kvöldið. Búast má við næturfrosti aðfaranótt laugardags og því gæti verið ísing á vegum snemma morguns, en hlýnar síðan er líður á daginn og gæti hiti farið upp í 12 stig er best lætur.

Það kólnar síðan á ný á sunnudeginum og búast má við klassískum útsynningi, suðvestanátt með skúrum og éljum. Vindur verður nokkuð stífur og má búast við allt að 18 metrum þar sem hvassast verður syðst á landinu.

Á mánudag snýr hann sér síðan í norðvestanátt með ofankomu fyrir norðan, en það léttir til sunnanlands. Spár gera svo ráð fyrir ágætis veðri víða um land á þriðjudag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert