Eins konar hugleiðsla í háloftunum

Margt má sjá úr lofti sem alla jafna er erfitt …
Margt má sjá úr lofti sem alla jafna er erfitt að komast að á landi, eins og þessir selir sem sáust úr svifvængjaflugi eru gott dæmi um.

Anita Hafdís Björnsdóttir og Róbert Bragason stofnuðu svifflugsfyrirtæki árið 2014. Þvert á það sem þau ætluðu fyrir fram hafa einhleypar konur verið stærstur hópur viðskiptavina.

Sjálf kynntist Anita íþróttinni árið 2007 og varð hugfangin af henni um leið. Hún líkir svifvængjaflugi við eins konar hugleiðslu, þar sem hraðinn er ekki aðalmálið heldur að njóta umhverfisins frá nýjum sjónarhóli.

Ég vissi ekki að þetta væri til fyrr en árið 2007 en eftir að ég prófaði svifvængjaflug fyrst varð ekki aftur snúið,“ segir Anita Hafdís Björnsdóttir, sem ásamt Róberti Bragasyni stofnaði fyrirtækið Happyworld sem hefur boðið ferðamönnum upp á svifvængjaflug, fisflug og svifflug frá árinu 2014. „Róbert kenndi mér árið 2007 að fljúga og ég varð alveg hugfangin af þessu flugi og vildi ekki gera neitt annað. Svo vatt þetta upp á sig þegar fólk spurði okkur hvort það mætti ekki koma með og smám saman byrjuðum við kynningarflug áður en þetta fyrirtæki var stofnað,“ segir Anita.

Ný vídd í útivistina

Hún segir að veður hamli svifflugsíþróttinni á veturna og fyrir vikið hafa þau einnig boðið upp á norðurljósaferðir ásamt stjörnuskoðun á veturna. „Þeir sem koma til okkar í svifvængjaflugið eru flestir útlendingar. Þetta er nokkuð sem maður gerir frekar sem ferðamaður. Síðan er nokkuð um að fólk komi eftir að hafa fengið stórafmælisgjöf. Gjarnan eru kærustupör að gefa hvort öðru þetta í gjöf þegar Íslendingar koma,“ segir Anita.

Viðskiptavinir fara yfirleitt í svifvængjaflug og þurfa enga sérþekkingu á fluginu áður en farið er af stað því þeir eru ávallt með reyndri manneskju í för. „Þessi lífsreynsla verður oft til þess að fólk fer á námskeið og lærir handtökin sjálft,“ segir Anita. Að sögn hennar er fólk nær undantekningarlaust yfir sig hrifið af upplifuninni. „Það eru ekki allir að sækjast eftir adrenalíninu, margir eru bara að sækjast eftir útivistinni og þeirri nýju vídd sem þessi útivist gefur lífinu,“ segir Anita.

Oftar konur

Hún segir að þvert á það sem þau höfðu haldið fyrir fram séu konur í miklum meirihluta viðskiptavina. „Oftast eru þetta einhleypar konur sem eru í leit að ævintýrum á ferð sinni um heiminn. Til okkar hefur líka komið nírætt fólk og krakkar. Þetta er fólk af öllum stigum lífs. Við héldum kannski að oftast yrðu þetta ungir strákar í leit að „adrenalínkikki“ en reynslan hefur sýnt okkur annað,“ segir Anita.

Þegar haldið er í svifvængjaflug er hlaupið fram af fjalli og eru nokkrir staðir umhverfis Reykjavík notaðir til þess eftir því hvernig vindar blása. „Adrenalínið felst að sjálfsögðu í því að hlaupa fram af fjalli og það er enginn mótor sem þú styðst við, heldur notast við uppstreymið og vinda til að svífa, líkt og fuglar gera. Svo fer þetta ekkert rosalega hratt, heldur snýst upplifunin um að svífa og njóta umhverfisins. Í hugum margra er þetta eins konar hugleiðsla,“ segir Anita.

Fallhlífin er með í för

Af öryggisástæðum er ávallt varafallhlíf fest við búnaðinn. Að sögn Anitu hefur hún aldrei þurft á henni að halda, þeir sem notist við hana séu aðallega þeir sem færa út mörkin og eru að æfa fyrir keppni. Hún veit ekki til þess að neinn sem hún þekkir til hafi þurft að notast við þennan öryggisbúnað.

Hægt er að nálgast upplýsingar um svifflug á happyworld.is

Hægt er að skoða landið frá nýju sjónarhorni við svifvængjaflug. …
Hægt er að skoða landið frá nýju sjónarhorni við svifvængjaflug. Fyrirtækið Happyworld hefur verið starfrækt síðan 2014.
Að sögn Anitu eru þeir sem prófa svifvængjaflugið alla jafna …
Að sögn Anitu eru þeir sem prófa svifvængjaflugið alla jafna í skýjunum með upplifunina.
Uppstreymið heldur vængnum á lofti.
Uppstreymið heldur vængnum á lofti.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert