Ekki um stórkostlegt gáleysi að ræða

Tryggingamiðstöðin.
Tryggingamiðstöðin. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tryggingamiðstöðin hefur verið dæmd til þess að greiða farþega í bílslysi fullar bætur vegna slyssins en félagið hafði lækkað bótagreiðsluna þar sem það taldi hann hafa sýnt af sér stórkostlegt gáleysi að sitja í bíl hjá ökumanni sem hafði neytt áfengis fyrr um kvöldið. Ökumaðurinn lést í slysinu.

Dómurinn féll í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær en banaslysið varð í apríl 2011. Farþeginn fór fram á að fá greiddar skaðabætur upp á tæpar 9 milljónir króna og féllst dómari á það þar sem farþeginn, sem var um tvítugt, hafi ekki sýnt af sér stórkostlegt gáleysi með því að leyfa ökumanninum að taka við stjórn bifreiðarinnar.

Mál þetta á rætur að rekja til alvarlegs umferðarslyss sem varð að morgni 10. apríl 2011 á Möðrudalsöræfum. Ökumaðurinn, sem var 17 ára, lést í slysinu en farþeginn, sem var um tvítugt á þessum tíma, slasaðist. Bifreiðin var í eigu föður bílstjórans. Ungu mennirnir voru á heimleið eftir að hafa ekið fyrr um kvöldið 336 km leið á dansleik. Sá sem slasaðist hafði ekið hluta þeirrar leiðar og sá sem lést í slysinu hafði drukkið bjór. Ferðalagið hófst um kvöldmatarleytið og voru þeir komnir á dansleikinn um miðnætti. Félagarnir lögðu af stað heim um nóttina að afloknum dansleik en slysið varð á sjöunda tímanum um morguninn.

í niðurstöðu rannsóknarnefndar umferðarslysa segir að líkur séu á að ökumaður hafi sofnað við aksturinn. Talið er að ökumaður hafi látist samstundis eða nánast samstundis. Mæling á vínandamagni í blóði hans reyndist 0,66‰ og 0,77‰ í þvagi.

Stefnda, TM hf., var tilkynnt um slysið með tölvupósti 5. nóvember 2011. Með bréfi, dags. 2. desember 2013, upplýsti TM um að bótaréttur hans yrði skertur um 2/3 hluta vegna þess að hann hefði sýnt af sér stórkostlegt gáleysi í skilningi umferðarlaga með því að hafa látið ölvuðum ökumanni eftir stjórn bifreiðarinnar, en honum hafi verið kunnugt um áfengisneyslu ökumanns bifreiðarinnar í aðdraganda slyssins. Ungi maðurinn, sem var metinn 15% öryrki eftir slysið, gat ekki fallist á þá afstöðu og skaut ákvörðun félagsins til úrskurðarnefndar í vátryggingamálum. Úrskurðarnefndin taldi að hann ætti rétt til bóta fyrir líkamstjón úr ábyrgðartryggingu bifreiðarinnar en að bætur skyldu takmarkast um helming vegna stórkostlegs gáleysis hans. Undi félagið þeirri niðurstöðu um hækkun bóta.

Dómarinn taldi hinsvegar að það gáleysi sem hann sýndi af sér með því að fallast á að hinn tæki við stjórn bifreiðarinnar, eins og á stóð, ekki virt sem stórkostlegt gáleysi í skilningi umferðarlaga og verði hann ekki talinn meðvaldur að slysinu. Á hann því rétt á að fá tjón sitt bætt að fullu og verða dómkröfur hans teknar til greina, en ekki er ágreiningur um fjárhæð þeirra.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert