Staðalímyndir helsta áskorunin

Kvennafrí 2016.
Kvennafrí 2016. mbl.is/Árni Sæberg

„Þær lögðu allar mikla áherslu á að vera þær sjálfar og taka ekki upp karllægan stjórnunarstíl,“ segir Dagný Jónsdóttir. Þetta er meðal þess sem kemur fram í erindi hennar sem hún heldur á Þjóðarspegli Háskóla Íslands í dag, sem nefnist „Þetta kemur bara ekkert upp í hendurnar á manni“: Upplifun kvenna í forystu í fjármálageiranum á Íslandi.

Erindið byggir á meistaraverkefni Dagnýjar í forystu og stjórnun við Háskólann á Bifröst þar sem hún rannsakaði 10 konur í æðstu stöðum í fjármálageiranum. Rannsóknarspurning hennar var svohljóðandi: „Hvernig upplifa konur í forystu í fjármálageiranum á Íslandi hlutverk sitt og stöðu sem kvenleiðtogar þar sem karlmenn eru í meirihluta.“

„Mig langaði að skoða hvað þær konur sem höfðu náð langt í karllægum heimi hefðu fram að færa og hvernig þær upplifðu hlutverk sitt,“ segir hún og bendir á að það vanti fleiri rannsóknir á kvenstjórnendum.   

Helstu niðurstöður rannsóknarinnar leiddu í ljós að starfsframinn hafði ekki komið upp í hendurnar á þeim, þær hafa þurft að sækjast eftir og grípa tækifærin. Þær virðast beita felandi stjórnun, með því að útdeila verkefnum og fela öðrum ábyrgð. Þær töluðu um að vera þær sjálfar og breyta sér ekki til að þóknast öðrum. Tíminn er stærsta fórnin sem þarf til þess að komast í stöður sem þessar. Viðhald og uppbygging á tengslaneti þykir líka mikilvæg og ein helsta hindrun kvenna á Íslandi ef þær vilja komast til áhrifa. Kröfur eru miklar og oft um kynbundinn mun á þeim að ræða. Þær hindranir og áskoranir sem þær standa frammi fyrir eru ýmsar, en færri en þær voru fyrir fimm árum.

Staðalímyndir áskorun í karllægum heimi 

„Staðalímyndir eru áskoranir fyrir konur því fjármálageirinn er karllægur. Einnig töluðu þær um kynbundinn launamun sem er meiri í þessari starfsgrein en almennt annars staðar,“ segir Dagný.

Hún vísar í könnun SSF, Samtök starfsmanna fjármálfyrirtækja, frá árinu 2013 sem sýndi að kynbundinn launamunur var 25% í fjármálageiranum. Samkvæmt tölum frá Hagstofunni sama ár var kynbundinn launamunur á Íslandi 20,5% og innan Evrópusambandsins, ESB, mældist munurinn 16,1% að jafnaði.

„Þær töluðu samt um að þetta væri að þokast í rétta átt og þær greindu jákvæð áhrif frá hruni,“ segir Dagný og bendir á að þær hafi nefnt að færri hindranir væru nú en fyrir fimm árum. Konum er að fjölga í stjórnendastöðumalmennt en þeim fjölgar ekki eins hratt í æðstu stöðum.

Dagný Jónsdóttir.
Dagný Jónsdóttir. mbl.is/Golli

Kynjakvóti hefur haft jákvæð áhrif

Í máli kvennanna kom fram að almennt stæðu stóru fjármálafyrirtækin sig best varðandi jöfnust kynjahlutföll í stjórnunarstöðum og í stjórn fyrirtækjanna. Þetta ætti ekki við um smærri fjármálafyrirtæki.

„Fjöldi rannsókna hafa sýnt að afkoma þeirra fyrirtækja sem eru með blandaðar stjórnir m.t.t. kyns eru með betri fjárhagslega afkomu. Stjórnir fyrirtækja ættu að sýna þessu áhuga,” segir Dagný. Í þessu samhengi bendir hún á að viðmælendur sínir töldu að kynjakvótalögin hafi haft jákvæð áhrif á þessa þróun.

Glerþakið er því enn til staðar í fjármálageiranum að mati Dagnýjar og vísar hún m.a. í kynbundinn launamun. Í viðskiptalífinu skiptir tengslanetið miklu máli og sérstaklega hér vegna smæðar landsins. Það er ein af þeim hindrunum sem konurnar nefndu. Þær sögðu mikilvægt að byggja upp og viðhalda góðu tengslaneti. Dagný segir þetta í samræmi við íslenskar nemendarannsóknir á þessu sviði.

Konur gera kröfur á konur

Konurnar sögðust einnig upplifa kynbundinn mun á kröfum til þeirra, það er að segja að meiri kröfur væru gerðar til þeirra sem stjórnenda bæði af konum og körlum. „Konur virðast einnig gera aðrar kröfur til kvenstjórnenda um að þær hafi meiri skilning á stöðu þeirra sem og að þær séu vinkonur,“ segir Dagný.

Í rannsókninni kom einnig í ljós að konurnar sögðust útdeila verkefnum og fela öðrum ábyrgð. Dagný segir þetta stangast á við tvær aðrar íslenskar rannsóknir á kvenstjórnendum frá árunum 2008 og 2009. Í þeim kom fram að kvenstjórnendur ynnu frekar meira sjálfar og deildu síður út verkefnum. Hún segir þetta hafi komið aðeins á óvart miðað við fyrri hugmyndir um stjórnunarstíl kvenna. Hún tekur þó fram að fyrrgreindar rannsóknir frá árunum fyrir hrun ná almennt yfir kvenstjórnendur. Annað hvort eigi þetta ekki við um konur í fjármálageiranum eða að margt hafi breyst eftir hrun.

„Tíminn var stærsta fórnin sem þær þurftu að færa. Þær lögðu samt sérstaklega áherslu á að þetta væri þeirra val ogþær skildu að allar konur hefðu ekki áhuga á störfunum vegna þess,“ segir Dagný og bendir á að allar lýstu þær mikilli starfsánægju.

 Makinn tekur jafnan þátt

„Hver einasta talaði um að þær næðu góðu jafnvægi milli heimilis og einkalífs því makinn tæki jafn mikinn þátt í heimilishaldinu og þær. Þetta kom mér talsvert á óvart," segir Dagný. Hún segir að margar þeirra hefðu búið erlendis og vitnuðu í að fyrirkomulagið í íslensku samfélagi væri gott. Góður skilningur í sambandinu ríkti um álag makans í starfi og það væri jafnt á báða bóga.

Í rannsókninni var spurningin svohljóðandi: „Hvernig ferðu að því að samþætta heimilislífið og vinnuna?“ Innt eftir frekari útskýringu á þessum þætti sagði Dagný að hún hefði ekki lagt mikla áherslu á þetta efni og var þar af leiðandi hafi ekki verið fleiri undirspurningar í þessum flokk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert