Braut nálgunarbann með 1.205 símtölum

Héraðsdómur Vestfjarða
Héraðsdómur Vestfjarða Bæjarins besta

Karlmaður var fyrr í vikunni dæmdur í héraðsdómi í níu mánaða fangelsi fyrir hótanir og ítrekuð brot á nálgunarbanni gagnvart sambýliskonu sinni. Hótaði hann konunni ofbeldi og lífláti og þá eftir að konan hafði fengið dæmt nálgunarbann á manninn mætti hann fimm sinnum á heimili konunnar og hringdi 1.205 sinnum í hana.

Í dóminum kemur fram að maðurinn hafi í apríl á þessu ári sent konunni tvö SMS-skilaboð með líflátshótunum. Fékk konan í kjölfarið dæmt nálgunarbann á hann, en maðurinn braut það fimm sinnum meðal annars þegar hann var við heimili konunnar þegar hún kom þangað í fylgd lögreglu til að skipta um læsingu á íbúðinni sem hún bjó í. Þá kallaði hann í gegnum bréfalúgu og úr garði í annað skipti þegar konan var í íbúðinni.

Maðurinn mætti einnig fyrir utan vinnustað konunnar í tvígang. Á níu daga tímabili hringdi svo maðurinn í 1.205 skipti í konuna meðan nálgunarbannið var í gildi.

Maðurinn var einnig fundinn sekur um að hafa haft í fórum sér um 149 grömm af amfetamíni og 1 gramm af maríhúana.

Viðurkenndi hann brot sín fyrir dómi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert