Sjálfstæðisflokkurinn með yfir 30%

Bjarni Benediktsson á kosningavöku Sjálfstæðisflokksins.
Bjarni Benediktsson á kosningavöku Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Árni Sæberg

Sjálfstæðisflokkurinn virðist ótvíræður sigurvegari kosninganna er 54.679 atkvæði hafa verið talin. Flokkurinn hefur hlotið 16.925 atkvæði, eða 31,6% sem er 4,9% aukning frá síðustu kosningum og nær 20 þingmönnum sem er einum fleiri en síðast. 

Vinstrihreyfingin  - grænt framboð er með 15,6% atkvæða sem er 2,7% aukning frá kosningunum 2013. VG næðu 10 mönnum á þing, þremur fleiri en síðast.

Píratar hafa einnig bætt verulega við sig frá síðustu kosningum, eða um 7,8%, en úrslitin benda engu að síður til að flokkurinn hljóti mun slakari kosningu en skoðanakannanir undanfarna mánuði hafa bent til. Píratar hafa hlotið 6.919 atkvæði eða 12,9%. Þeir ná samkvæmt þessum tölum níu þingmönnum inn, sem er sex þingmönnum meira en 2013.

Viðreisn hefur hlotið 5.565 atkvæði eða 10,4%, og virðist fylgi flokksins því nokkuð svipað og skoðanakannanir hafa bent til. Haldist fylgið óbreytt mun flokkurinn koma sjö mönnum á þing og eru fjórir þeirra jöfnunaþingmenn.

Framsóknarflokkurinn og Samfylkingin hrynja hins vegar í fylgi miðað við fyrstu tölur. Fylgi Framsóknar minnkar um 14,7% og hefur flokkurinn fengið 9,7% atkvæða. Flokkurinn fengi samkvæmt þessu kjörna 7 menn á þing, sem er 12 þingmönnum minna en 2013. 

 Samfylkingin hefur fengið 6,2% atkvæða, sem er 6,7% minna en í kosningunum  2013 og tapar flokkurinn samkvæmt þessu fimm þingmönnum og fengi ekki nema fjóra menn á þing að þessu sinni.

Segja má að Björt framtíð hafi unnið vissan varnarsigur miðað við fyrstu tölur, en flokkurinn hefur fengið 8,1% atkvæða, sem er 0,1% minna en síðast. Flokkurinn tapar engu að síður einum manni og fengi fimm þingmenn kjörna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert