Tilbúinn að endurskoða hlutverk kjararáðs

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins.
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég lagði til miklar breytingar á hlutverki kjararáðs. Ég undrast það ekki að menn hafi skoðanir á þessum hækkunum en spurningin situr alltaf eftir hvernig eigi að ákvarða laun kjörinna fulltrúa og annarra sem heyra undir kjararáð og hvaða viðmið eigi að leggja til grundvallar.“

Þetta segir Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, í samtali við mbl.is inntur eftir viðbrögðum við ákvörðun kjararáðs að hækka þingfararkaup um 338 þúsund krónur á mánuði upp í rúmar 1.100 þúsund krónur og laun ráðherra og forseta Íslands um nálægt hálfa milljón króna á mánuði. Hækkunin er hugsuð til þess að jafna laun þingmanna og ráðherra við laun héraðsdómara og hæstaréttardómara.

Frétt mbl.is: Jafna laun þingmanna og dómara

Vísar Bjarni þar til frumvarps sem hann lagði fram í haust um breytingar á lögum um kjararáð þar sem meðal annars var gert ráð fyrir fækkun þeirra stétta sem heyrðu undir ráðið.

„Ég er meira en reiðubúinn í samtal um framtíð þessara mála og lagabreytingar ef þess gerist þörf en ég held ekki að það sé ástæða til þess að gera breytingar á þeim þætti laganna sem segir að ráðherrar, alþingismenn og aðrir sem heyra undir ráðið og ekki hafa samningsrétt skuli njóta sambærilegra kjara og aðrir þeir sem gegna viðlíka ábyrgðarstörfum í þjóðfélaginu.“

Bjarni segir að þetta sé að gerast vegna þess að gripið hafi verið inn í störf kjararáðs á sínum tíma, sem hafi valdið mikilli skekkju yfir tíma. Vísar hann þar til ákvarðana sem teknar voru í kjölfar bankahrunsins. Nú þegar það sé að ganga til baka undrist hann ekki að fólk sé hissa á því. Það eigi sér hins vegar allt skýringar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert