Hipsterar innan um heimilismenn á Grund

„Við erum búin að halda tónleika á Grund í nokkur ár ásamt séra Pétri [Þorsteinssyni hjá Óháða söfnuðinum]. Ég held að þetta sé fjórða árið og hefur þetta mælst rosalega vel fyrir. Það er yndislegt að koma þangað,“ segir Grímur Atlason, framkvæmdastjóri Iceland Airwaves-tónlistarhátíðarinnar.

Formleg dagskrá hátíðarinnar hefst í kvöld, á flestum sviðum klukkan átta en Tómas Jónsson ríður á vaðið klukkan 19.10 á NASA. Í hádeginu spiluðu Soffía Björg og Boogie Trouble „off-venue“ á dvalarheimilinu Grund. Grímur segir að á svona „off-venue“-tónleika mæti fjöldi erlendra hipstera, sem skapi skemmtilega tónleika-stemningu í bland við heimilismennina.

Grímur Atlason framkvæmdastjóri Iceland Airwaves.
Grímur Atlason framkvæmdastjóri Iceland Airwaves.

„Það átta sig margir ekki á því að þeir sem eru á hjúkrunarheimilum um allt land voru á fullu á Glaumbar og Krossinum í Keflavík á sínum tíma. Þetta er fólk sem þekkir dægurmenninguna mjög vel,“ segir Grímur. Það er ansi langt síðan Presley kom fram.“

Níu þúsund manns sækja hátíðina í ár og þúsundir til viðbótar ef hliðarviðburðir á borð við þennan á Grund í dag eru taldir með. „Rúmlega helmingur þeirra er útlendingar. 220 bönd koma fram, þar af 150 íslensk, og 267 tónleikar verða on-venue og 820 off-venue,“ segir Grímur. Grímur segir enn nokkra miða vera eftir á hátíðina en gerir ráð fyrir að þeir seljist í dag eða á morgun. Uppselt var á mánudeginum í fyrra.

Í myndbandinu hér að ofan má heyra brot úr tónleikum Boogie Trouble á Grund í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert