Ræða hópuppsagnir eða „veikindi“

Kennarar eru orðnir langþreyttir á kjarabaráttu sinni og úrskurður kjaradóms …
Kennarar eru orðnir langþreyttir á kjarabaráttu sinni og úrskurður kjaradóms hefur vakið reiði hjá mörgum. mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Mikil reiði er meðal kennara vegna nýlegs úrskurðar kjararáðs um launahækkanir ráðamanna og hafa ófáir þeirra tjáð sig um málið á samfélagsmiðlum og m.a. lýst því yfir að „niðurlægingin við að skoða launaseðilinn“ hreki þá að leita á önnur mið, líkt og Jóhannes Gunnar Bjarnason, grunnskólakennari við Brekkuskóla á Akureyri orðaði það.

Þá hefur Facebook-færslu Guðbjargar Pálsdóttur, grunnskólakennara í Reykjavík, frá því í gær verið deilt tæplega 500 sinnum, en Guðbjörg lýsti því yfir að hún hefði sagt upp eftir að hafa fengið fréttirnar af úrskurði kjararáðs.

„Gerum bara eins og flugumferðastjórar“

Uppsögn er hugmynd sem virðist njóta stuðnings fjölda kennara um þessar mundir. Mbl.is hefur fregnir af óformlegum skoðanakönnunum meðal kennara á Facebook þar sem spurt er hvernig þeir vilja sjá kennarastéttina taka á málum. Mikill meirihluti virðist vera þeirrar skoðunar að fjöldauppsagnir eða „veikindi“ séu réttu viðbrögðin. Verkfallsaðgerðir njóta hins vegar minni stuðnings. „Rugl að fara í vinnustöðvun, þá er bara dregið af laununum,“ segir í einum þræðinum og annarsstaðar í sama þræði segir: „Gerum bara eins og flugumferðastjórar. Veikindi, veikindi, veikindi....“

Þá hafa líka komið fram hugmyndir hjá kennurum um að leggja niður störf og þramma niður á Austurvöll þegar þingsetning fer fram.

Berglind Kristinsdóttir, grunnskólakennari í Hveragerði, er ein þeirra kennara sem tjáð hafa sig um málið og í aðsendri grein í Kvennablaðinu, segir hún líða að því að hún fái nóg.

„Við nefnilega getum ekki verið langþreytt að eilífu og sú umhyggja sem ég ber til nemenda minna sem gerir það að verkum að ég mæti daglega samningslaus til vinnu mun vega minna á vogarskálunum þegar fram í sækir,“ segir í greininni.

„Úrskurður kjararáðs eins og blaut tuska“ 

Berglind staðfestir í samtali við mbl.is að sú hugmynd hafi komið upp í lokuðum Facebook-hópi grunnskólakennara að kennarar taki sig saman um að tilkynna sig veika og mæta ekki til vinnu. Það er ekki búið að negla einhvern dag, en það eru uppi hugmyndir um þetta,“ segir hún.

„Kennarar eru orðnir langþreyttir og vonlitlir og það er reiði núna í fólki.“  Hún segir þreytu og óánægju kennara með aðstæður sínar hafa verið til umræðu í töluverðan tíma. „Síðan kom úrskurður Kjararáðs eins og blaut tuska í andlitið og þá hætti fólk að vera þreytt og leitt og varð bara meira reitt.“

 Ekki fengið krónu nema gegn sölu réttinda

„Ég er grunnskólakennari. Afar dapur grunnskólakennari. Dapur vegna þess hvernig komið er fyrir minni stétt. Samningslaus í heilt ár. Útborguð laun fyrir nóvember lægri en launahækkun þingmanna. Allir flokkar sögðust ætla hækka laun kennara kæmust þeir til valda. Einmitt, hve oft hef ég heyrt þetta?“ segir í Facebook-færslu Jóhannesar, sem hefur starfað við kennslu í 32 ár.

„Þetta er þyngra en tárum taki,“ segir hann í samtali við mbl.is og kveðst orðinn vondaufur um að breyting verði á stöðu kennara.

Líkt og Berglind og fleiri kennarar sem rætt var við, þá hefur hann orðið var við gríðarlega þreytu meðal kennara. Margir hugsa sér til hreyfings af þessum sökum og segist Jóhannes m.a. gera það sjálfur, þó hann eigi ekki mörg ár í að komast á eftirlaun.

„Bara á þessari önn þá hafa þrír kennarar hætt í Brekkuskóla. Þeir hafa ekki geta réttlætt það fyrir sjálfum sér að fá rúmar 300.000 krónur fyrir alla þessa ábyrgð. Ég búin að fá alveg upp í kok á þessu ástandi,“ segir Jóhannes og ítrekar að þar eigi hann við ástandið, en ekki starfið sjálft. Hann hefur, líkt og fleiri kennarar, alltaf unnið annað starf með til að „fjármagna kennsluna“ eins og hann orðar það.

„Ég er kominn í hæsta taxta sökum aldurs en grunnlaun mín eru lægri en launahækkun Guðna Th.,“ sagði Jóhannes í færslu sinni, sem hann hefur fengið gríðarleg viðbrögð við. Þar bendir hann á að kennarar hafi ekki fengið launahækkanir í síðustu kjarasamningum, nema gegn sölu á réttindum.  „Hvaða stétt semur um kjör sín á þann hátt?“ spyr hann. „Við höfum ekki fengið eina krónu í kjarabætur öðruvísi en svo að það þurfi alltaf að selja einhver réttindi. Þetta jaðrar við mannréttindabrot.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert