„Er eitthvað að frétta?“

Fjölmiðlamenn bíða átekta fyrir utan Ráðherrabústaðinn í dag.
Fjölmiðlamenn bíða átekta fyrir utan Ráðherrabústaðinn í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Rétt fyrir klukkan tíu í morgun renndu bílar helstu fjölmiðla landsins upp að Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu. Tilefnið var fundur Katrínar Jakobsdóttur, formanns Vinstri grænna, og Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokks.

Fundur þeirra markaði upphafið á löngum degi fyrir þá fjölmiðlamenn sem þarna komu saman fyrir utan bústaðinn, enda fóru í hönd fleiri fundir við formenn stjórnmálaflokka. Einkenndist dagurinn aðallega af bið, ýmist eftir komu stjórnmálaforingja að húsinu eða þá að fundi þeirra lyki, svo hægt væri að taka þá tali.

Forvitnir vegfarendur

Ýmissa grasa kenndi fyrir utan húsið á meðan fundunum stóð, en allflestir vegfarendur hægðu á sér og gutu augunum að bústaðnum, hvort sem þeir voru fótgangandi, hjólandi eða akandi.

Þónokkrir gerðu þá stutt hlé á ferðum sínum til að spyrja fjölmiðlamenn fregna af viðræðunum. „Er eitthvað að frétta?“ og „Hver er inni núna?“ voru þá þær spurningar sem vegfarendur beindu oftast að hópnum.

Meðal þeirra sem áðu fyrir utan bústaðinn voru Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, fráfarandi þingmaður Samfylkingarinnar, og Vilhjálmur Bjarnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Frá hinu fræga viðtali, sem fram fór í bústaðnum.
Frá hinu fræga viðtali, sem fram fór í bústaðnum.

Afdrifaríkt viðtal í marsmánuði

Líta má svo á, að viðræður formannanna í Ráðherrabústaðnum séu í raun nýjasti þátturinn í atburðarás sem hófst fyrir rúmu hálfu ári, einmitt í sama húsi.

Viðtal Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, þáverandi forsætisráðherrra, við þá Sven Bergman, sjón­varps­mann SVT, og Jó­hann­es Kr. Kristjáns­son hjá Reykja­vík Media, sem tekið var upp þann 11. mars í Ráðherra­bú­staðnum, hefur sannarlega reynst afdrifaríkt. 

Frétt mbl.is: „Hvaða atriði ertu að reyna að búa til hérna?“

Til marks um það er nú útlit fyrir að Ísland eignist brátt sinn þriðja forsætisráðherra á þessu ári, sem er harla óvenjuleg staða.

Sæbólskirkja á Ingjaldssandi við Önundarfjörð. Ráðherrabústaðurinn stóð eitt sinn í …
Sæbólskirkja á Ingjaldssandi við Önundarfjörð. Ráðherrabústaðurinn stóð eitt sinn í firðinum. mbl.is/Sigurður Ægisson

Grunlausir ferðamenn

Óhjákvæmilega átti nokkur fjöldi ferðamanna leið framhjá bústaðnum í dag. Stöldruðu einhverjir þeirra við og tóku jafnvel myndir af húsinu. Eflaust voru þeir þó grunlausir um það sem fram fór innan dyra, enda líkast til ekki brennandi áhugi á íslenskum stjórnmálum sem dreif þá hingað til lands.

Grunlausastur allra, um það hlutverk sem þetta hús hefur leikið í allri þessari atburðarás, var þó líklega Norðmaðurinn Hans Ellefsen, sem árið 1892 lét reisa það á Sólbakka við Önundarfjörð.

Síðar bauð hann vini sínum, Hannesi Hafstein, húsið að gjöf, en hann hafði þá gegnt embætti sýslumanns Ísfirðinga. Að því er fram kemur á vef forsætisráðuneytisins var húsið þá tekið í sundur og flutt suður til Reykjavíkur, þar sem það reis aftur árið 1906.

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, mætir til fundar í Ráðherrabústaðnum …
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, mætir til fundar í Ráðherrabústaðnum í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stansaði til að klappa ketti

Ekki ratar allt það í fréttir fjölmiðla, sem atvikast á vettvangi stjórmálanna. Þannig var þess ógetið, í fréttum af fundi Pírata með Bjarna, að Birgitta Jónsdóttir kapteinn þeirra stansaði í tröppunum á leið á fundinn, til að klappa forvitnum ketti sem þar hafði gert sig heimakominn.

Þá spurði blaðamaður að gamni Katrínu, sem fékk aðeins fimm útstrikanir í alþingiskosningunum á laugardag, hvort hún hygðist hafa uppi á þeim bíræfnu einstaklingum. Katrín var snögg til svars:

„Já, ég ætla að að biðja það fólk að gefa sig fram við mig, og ætla að fá að ræða við það persónulega,“ sagði hún og hló dátt um leið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert