Flóðbylgjuhætta af hopandi jöklum

Farvegur flóðbylgjunnar sem óð niður Steinsholtsdal árið 1967. Hólarnir eru …
Farvegur flóðbylgjunnar sem óð niður Steinsholtsdal árið 1967. Hólarnir eru set sem barst með flóðinu. ljósmynd/Þorsteinn Sæmundsson

Hrun úr óstöðugum hlíðum fyrir ofan skriðjökla og lón þeirra sem eru að hopa vegna hlýnandi loftslags getur valdið gríðarstórum og skyndilegum flóðbylgjum sem geta ógnað mönnum og mannvirkjum. Þorsteinn Sæmundsson jarðfræðingur segir breytingar við skriðjökla landsins og við jaðra þeirra afar hraðar og að kortleggja þurfi varhugarverðar hlíðar í námunda við jökullón.

Íslenskir jöklar hafa hörfað hratt síðustu öldina vegna þeirrar hnattrænu hlýnunar af völdum manna sem hefur átt sér stað á jörðinni. Á sumum stöðum hafa jöklarnir jafnvel hörfað um hundruð metra og þynnst mikið. Spáð er að jöklarnir verði að mestu leyti horfnir eftir hundrað til tvö hundruð ár með sama áframhaldi.

Ein afleiðing bráðnunarinnar er að djúp lón hafa og eru að myndast framan við marga sporða skriðjökla, eins og Jökulsárlón við Breiðamerkurjökul sem er orðið einn helsti ferðamannastaður landsins. Undanfarin ár hefur Þorsteinn rannsakað hlíðar fjalla ofan við nokkra skriðjökla landsins til að greina hugsanlega hættu á að berghrun geti komið af stað flóðbylgjum úr jökullónum. Hann hélt erindi um ofanflóð á skriðjökla á vísindadegi Háskóla Íslands um síðustu helgi.

„Þetta getur valdið töluverðu tjóni á innviðum; vegum, brúm og öðru slíku. Það sem við þurfum líka að horfa á er að við erum með mikinn fjölda ferðamanna í kringum þessi jökullón og miklu meiri umferð þar en var áður,“ segir Þorsteinn í viðtali við Mbl.is.

Rigning, leysingar og jarðskjálftar geta sett hlíðar af stað

Þegar jöklar ganga niður dali rjúfa þeir hliðarnar og þegar þeir hörfa eins og nú gerist geta þeir skilið eftir sig óstöðugar hlíðar. Þorsteinn segir að þessar hlíðar getið hrunið í rigningum, leysingum eða jarðskjálftum eða hreinlega vegna eigin óstöðugleika.

„Þetta er að gerast í dag. Jöklar eru að hopa og þynnast. Eftir standa brattar hlíðar sem geta náttúrulega hrunið niður. Þetta efni getur bæði fallið á jöklana sjálfa og líka ofan í jökullón sem eru að myndast fyrir framan sporða margra skriðjökla í dag. Þeir eru að hörfa mjög hratt og við verðum að fylgjast vel með því sem er að gerast í kringum þessa jökla,“ segir hann.

Urð þekur stóran hluta Morsárjökul eftir stórt berghlaup sem féll …
Urð þekur stóran hluta Morsárjökul eftir stórt berghlaup sem féll á hann árið 2007. Myndin var tekin í fyrra. ljósmynd/Doris Hermle

Þorsteinn vann á snjóflóðadeild Veðurstofu Íslands frá 1995 til 2000 og var síðan forstöðumaður Náttúrustofu Norðurlands vestra til ársins 2013, þegar hann hóf störf hjá Háskóla Íslands. Á þessum rúmu tuttugu árum hefur hann því skoðað margt sem kemur ofanflóðum við.

Eftir að stórt berghlaup féll á Morsárjökul árið 2007 segist Þorsteinn hafa fylgst með breytingum á þeim jökli og safnað saman gögnum um ofanflóð sem hafa fallið á skriðjökla á Íslandi og á hvaða tímabilum þau hafa fallið.

Flóðbylgjan bar með sér stórgrýti niður dalinn

Bergskriðan sem féll ofan á Morsárjökul var stór og þakti fimmtung hans með urð. Stórt berghrun sem féll á Steinsholtsjökul árið 1967 er hins vegar dæmi um hvað getur gerst þegar slíkar skriður falla í jökullón.

„Fyrir framan Steinsholtsjökul á þeim tíma var jökullón og féll skriðan að hluta til ofan í það og orsakaði mikla flóðbylgju sem geystist niður samnefndan dal. Vatnsflóðið bar með sér mikið af seti og stórgrýti sem sést meðal annars á söndunum við Steinsholtsá neðan við mynni dalsins þar sem vegurinn inn í Þórsmörk liggur. Stærð þessara steina gefur glögga mynd um hversu stór þessi atburður var,“ segir Þorsteinn.

Ofanflóð af þessu tagi eru engin smásmíði. Skriðan sem féll á Morsárjökul teygði sig um 1,7 kílómetra frá brotsári sínu og er áætlað að um 3,5 milljónir rúmmetra bergs hafi hrunið. Það jafngildir um átta til níu milljónum tonna af efni.

Berghrunið á Steinsholtsjökul var enn stærra að vöxtum. Þar er talið að um ellefu milljónir rúmmetra hafi farið af stað, um það bil 25 milljón tonn bergs.

„Við erum að sjá allt frá minniháttar aurskriðum upp í heilar fjallshlíðar sem hafa fallið niður. Þessir atburðir geta verið misstórir og sumir valdið miklum usla,“ segir Þorsteinn.

Brotsárið við Steinholtsjökul sést enn (hægra megin á myndinni). Jökullinn …
Brotsárið við Steinholtsjökul sést enn (hægra megin á myndinni). Jökullinn hefur hopað mikið frá því að berghrunið átti sér stað árið 1967. ljósmynd/Þorsteinn Sæmundsson

Á við 4.800 Vesturbæjarsundlaugar

Þó að ofanflóð af þessu tagi séu ekki tíð segir Þorsteinn að ef svipaður atburður og átti sér stað fyrir tæpum fimmtíu árum á Steinsholtsjökli gerðist í dag gæti hann haft miklar afleiðingar í för með sér, ekki síst vegna þess að jökullónunum hefur fjölgað og þau stækkað á undanförnum árum.

„Þetta eru afleiðingar hlýnunarinnar. Þegar jökulhörfunin er svona hröð nær framburðurinn sem jökullinn og jökuláin undir honum flytur með sér ekki að fylla upp í holrýmið sem myndast þegar jökullinn hörfar. Við það myndast svæði sem fyllist af vatni,“ segir Þorsteinn.

Þegar lónið er komið til staðar veldur það svonefndri jákvæðri svörun (e. positive feedback loop) og hraðar enn á bráðnun jökulsins þegar hann kelfist ofan í vatnið. Þannig hörfar jökullinn enn meira en ef hann væri á þurru landi.

Sem dæmi um hversu mikið þessi lón hafa stækkað nefnir Þorsteinn lónið fyrir framan Morsárjökul. Það sé nú um það bil fjórum sinnum stærra en það sem var fyrir framan Steinsholtsjökul árið 1967.

Þá eru lónin djúp, tugir og allt upp í hundrað metrar að dýpt. Sem dæmi nefnir Þorsteinn lónið við Sólheimajökul sem hefur myndast á síðustu sjö árum. Það sé um sextíu metra djúpt.

„Vatnsmagnið í því lóni í dag er um 3,4 milljónir rúmmetra, sem samsvarar 4.800 Vesturbæjarsundlaugum,“ segir Þorsteinn.

Þorsteinn Sæmundsson, jarðfræðingur.
Þorsteinn Sæmundsson, jarðfræðingur.

Kortleggi hættulegar hlíðar og komi upp vöktun

Ofanflóð á skriðjökla má að hluta til tengja þeirri miklu hörfun sem á sér nú stað vegna hlýnunar. Berghrunið við Steinsholtsjökul árið 1967 átti sér stað við lok hlýindaskeiðs sem stóð yfir frá um 1920 til 1970. Við tók kuldakast á landinu þegar jöklar náðu vopnum sínum aftur tímabundið og varði til 1995.

Í þeim viðvarandi hlýindum sem hafa verið síðan hafa nokkuð ofanflóð fallið á jökla, þar á meðal það stóra á Morsárjökul árið 2007. Því má búast við að hrun af þessu tagi verði tíðari eftir því sem hnattræn hlýnun heldur áfram að láta til sín taka.

Í sumar fóru Þorsteinn og samstarfsfólk hans og mældu dýpt nokkurra jökullóna og skoðuðu nokkrar af hlíðunum fyrir ofan skriðjökla. Hann segir hins vegar þörf á miklu umfangsmeiri kortlagningu. Helsta hættan sé á svæðum þar sem brattar hlíðar eru í námunda við jökullón.

Sprunga sem tekin er að myndast ofan við Svínafellsjökul. Myndin …
Sprunga sem tekin er að myndast ofan við Svínafellsjökul. Myndin var tekin í sumar en sprungan er um 115 metrar að lengd. ljósmynd/Þorsteinn Sæmundsson

Ekki hefur enn verið gerðir líkanareikningar á hugsanlegum flóðbylgjum úr jökullónum en Þorsteinn vitnar til sögunnar í þessu samhengi.

„Við vitum bara eins og dæmið sýndi 1967 að þessar flóðbylgjur geta verið mjög stórar og komið mjög snögglega,“ segir hann.

Erfitt getur verið að komast að sumum hlíðunum við skriðjöklana og þar hafa flygildi meðal annars verið notuð til að kortleggja sprungur í þeim sem geta bent til þess að þær séu óstöðugar. Markmiðið segir Þorsteinn að kortleggja varhugarverðar hlíðar og setja upp vöktunaráætlun þar sem hættan er mest.

„Á sumum stöðum, til dæmis við Svínafellsjökul þar sem við erum að fylgjast með sprungu eru skipulagðar ferðir upp á jökulinn. Þetta þarf náttúrulega að skoðast í samhengi,“ segir hann.

Landlíkan af sprungunni ofan við Svínafellsjökul og klettunum umhverfis hana. …
Landlíkan af sprungunni ofan við Svínafellsjökul og klettunum umhverfis hana. Sprungan er sýnd sem brotalína. tölvulíkan/Daniel Ben-Yehoshua/Victor Madrigal/Svarmi
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert