Kornið sem fyllti mælinn

Fjöldi kennara kom saman í Ráðhúsi Reykjavíkur.
Fjöldi kennara kom saman í Ráðhúsi Reykjavíkur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Helmingur þeirra sem útskrifast sem kennarar í dag fer ekki í kennslu.“ Þetta segir Ólöf Sighvatsdóttir, meistaranemi í kennarafræðum, í samtali við mbl.is.

Hátt í hundrað kennarar og kennaranemar komu saman í Ráðhúsinu nú síðdegis til að færa Degi B. Eggertssyni borgarstjóra lista með nærri þrjú þúsund undirskriftum kennara, sem safnast hafa á netinu yfir helgina.

Samsvarar fjöldinn um 60% starfandi kennara hér á landi, en þeir krefjast þess að sveitarfélög bregðist án tafar við alvarlegu ástandi sem skapast hafi í skólakerfinu, sem einkennist af lágum launum og manneklu.

Sýnir að það er til peningur

„Við sjáum fram á að hafa lítinn pening á milli handanna í framtíðinni, þar sem erfitt að reka heimili, sérstaklega ef maður er einstæður,“ segir Hörður Arnarson, annar kennaranemi í samtali við mbl.is.

„Okkur finnst launin ekki endurspegla mikilvægi starfsins og álag námsins,“ segir Ólöf. Úrskurður kjararáðs hafi þá verið kornið sem fyllti mælinn.

„Hann sýnir að það er til peningur,“ bætir Hörður við.

„Hér áður fyrr voru laun þingmanna miðuð við kennaralaun,“ segir Ólöf þá. „Mér finnst að kennaralaun ættu að taka mið af þingmannalaunum í dag.“

Dagur B. Eggertsson ásamt fulltrúum kennara og kennaranema.
Dagur B. Eggertsson ásamt fulltrúum kennara og kennaranema. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bjóst við að sjá mun færri

Fulltrúar átaksins afhentu Degi undirskriftirnar og sögðust um leið treysta á að hann myndi ganga í verkið, þar sem þörf væri á traustu og faglegu menntakerfi á Íslandi.

Frétt mbl.is: „Nýir kennarar fást ekki til starfa“

Dagur þakkaði þeim fyrir komuna og sagði það fínt að finna fyrir samstöðu hjá kennurum.

„Ég tek undir það með ykkur og vona að hratt gangi að finna samleið hjá sveitarfélögum og kennurum í þessari erfiðu kjaradeilu,“ sagði Dagur. Bætti hann við að hann hefði búist við að sjá mun færri.

„Ég hafði hugsað mér að fara yfir stöðuna á fundi með nokkrum fulltrúum en ég vissi ekki að þið kæmuð svona mörg. Ég hélt það kæmu kannski svona fjórir, fimm,“ sagði Dagur, við hlátur nokkurra kennara.

Dagur sagðist taka undir áhyggjur kennara.
Dagur sagðist taka undir áhyggjur kennara. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Huga þurfi að ýmsu

Í samtali við mbl.is segir Dagur að úrskurður kjararáðs hafi hleypt atburðarásinni af stað.

„Það er ljóst að sveitarfélögin eru í erfiðri kjaradeilu, þar sem samningar hafa náðst tvisvar en þeir síðan felldir, en ég mun koma þessum undirskriftum til Sambands íslenskra sveitarfélaga og samninganefndanna. Ég tek undir hvatningu kennara um að það sé mikilvægt að ná samningum og tryggja frið og gott starfsumhverfi til framtíðar.“

Aðspurður segir hann Reykjavík í betri stöðu en flest sveitarfélög, hvað varðar manneklu í menntakerfinu.

„Það breytir því ekki að þegar við horfum nokkur ár fram í tímann, þar sem stórir og öflugir hópar kennara eru að nálgast eftirlaunaaldurinn, þá er alveg ljóst að huga þarf að ýmsu til að gera skólana að eftirsóknarverðum vinnustað.“

Í þeim tilgangi hafi skóla- og frístundaráð borgarinnar sett á stofn starfshópa með Félagi grunnskólakennara og Félagi leikskólakennara, þar sem huga eigi að því hvernig hægt sé að fjölga kennurum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert