Sagði höfundi Downton Abbey að skammast sín

Birgitta Jónsdóttir.
Birgitta Jónsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Birgitta Jónsdóttir, kapteinn Pírata, var gestur í spjallþættinum Skavlan á norsku ríkissjónvarpsstöðinni NRK í kvöld. Ásamt henni var gestur þáttarins breski lávarðurinn Julian Fellowes, einnig þekktur sem höfundur vinsælu þáttanna um Downton Abbey.

Farið hafði verið yfir víðan völl í þættinum þegar þáttastjórnandinn spurði Birgittu hvaða skoðun hún hefði á meintum afskiptum Wikileaks af forsetakosningunum vestanhafs, og á þeirri trú margra að Wikileaks hefði fært Donald Trump forsetastólinn.

Samtökin gengið of langt

Sagði hún að samtökin hefðu gengið of langt í því tilfelli, en að hún hefði verið sammála gjörðum þess á árunum 2009 til 2012, til dæmis.

Fellowes tók þá fram í fyrir Birgittu og sagðist ekki geta setið undir þessum málflutningi. Sagðist hann ósammála öllu því sem Wikileaks stæði fyrir.

Birgitta benti þá á hlutverk Wikileaks við uppgötvun Panamaskjalanna og umfjöllun um þau.

„Ég held að við hefðum ekki séð þess háttar starf ef Wikileaks hefði ekki notið við,“ sagði Birgitta og bætti við að skoða þyrfti samtökin í sögulegu samhengi.

Hlaut lófaklapp úr salnum

Fellowes sagði að sér fyndist það fráleitt að tala eins og hægt væri að stjórna landi með því að láta svikara ljóstra upp um skjöl sem hefðu verið leynileg.

„Skammastu þín. Skammastu þín,“ sagði Birgitta, og hlaut lófaklapp úr salnum. „Uppljóstrarar sem varpa ljósi á spilltar ríkisstjórnir og stríðsglæpi eru ekki svikarar. Skammastu þín,“ bætti hún við, og hlaut lófaklapp enn á ný.

Umrædd orðaskipti hefjast um tímamarkið 40:00 í myndskeiðinu, á vef NRK.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert