Furðar sig á Bjartri framtíð

Svandís Svavarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna.
Svandís Svavarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna. mbl.is/Ómar Óskarsson

Svandís Svavarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, segist hissa á framgöngu Bjartrar framtíðar að loknum alþingiskosningum.

„Ég held að mörgum hafi orðið hverft við, vegna þess hversu hratt Björt framtíð sneri sér við eftir kosningar. Það er ljóst að flokkurinn vildi ekki reyna á það samstarf sem lagt hafði verið upp með,“ sagði Svandís í Vikulokunum á Rás 1 fyrir hádegi.

Vísaði hún þar til Lækjarbrekkufundanna svokölluðu, sem haldnir voru fyrir kosningarnar, þar sem Vinstri græn, Samfylking, Píratar og Björt framtíð funduðu um mögulega stjórnarmyndun að þeim loknum.

Vinstri græn í nýrri stöðu

Ásamt henni voru gestir þáttarins þau Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks, og Pawel Bartoszek, þingmaður Viðreisnar.

Áslaug sagði að sér fyndist það miður þegar flokkar útilokuðu samstarf við aðra strax að loknum kosningum. Kjósendur sem heild vildu fremur samstarf stærstu flokkanna, og því eðlilegt að þeir ræddu saman.

Svandís sagði Vinstri græn sem flokk vera kominn í nýja stöðu, sem burðarás á vinstrivængnum, og því hefði verið mjög óráðlegt að ganga til samstarfs við Sjálfstæðisflokkinn.

Bretta upp ermar

Pawel tók fram að hann bæri mikla virðingu fyrir Vinstri grænum og að hann gæti vel hugsað sér að starfa með fólki innan hans. Hins vegar væri ljóst að viss hugmyndafræðilegur ágreiningur væri til staðar.

Þá sagði hann þreifingarnar hafa tekið býsna langan tíma, og að skrýtið væri að hefja formlegar viðræður fyrst núna. En fyrst svo væri þá dygði ekki annað en að bretta upp ermar og ganga til verksins.

Áslaug benti þá á að síðustu viðræður, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og Bjarna Benediktssonar árið 2013, hefðu tekið 26 daga. Því mætti gefa ferlinu meiri tíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert