Undanskotin nema hundruðum milljóna

Panamaskjölunum var lekið frá lögfræðistofunni Mossack Fonseca.
Panamaskjölunum var lekið frá lögfræðistofunni Mossack Fonseca. AFP

Mál sem varða fjörutíu og sex stórfelld skattalagabrot hafa verið send til saksóknara eftir rannsóknir skattrannsóknarstjóra á gögnum aflandsfélaga. Hátt í hundrað manns hafa haft stöðu sakbornings í rannsóknunum, en skattaundanskotin nema hundruðum milljóna króna.

Ríkisútvarpið greinir frá þessu.

Segir þar að skattrannsóknarstjóri hafi á síðasta ári keypt gögn um eignir Íslendinga í skattaskjólum, fyrir 37 milljónir króna. Miðað við umfang málanna séu fjárhæðirnar, sem stungið hefur verið undan, þó margfalt hærri en kaupverð gagnanna.

Geta varðað fangelsi til sex ára

Um 500 félög, sem tengjast Íslendingum, var að finna í þeim gögnum sem embættið keypti.

Þá hafa alls 108 mál, sem tengjast Panamaskjölunum, verið tekin til formlegrar rannsóknar vegna gruns um skattalagabrot þó að sum þeirra hafi áður verið til rannsóknar hjá embættinu.

Fram kemur einnig í frétt Ríkisútvarpsins að embættið hafi gert um tug húsleita og lagt þar hald á gögn, og tekið skýrslur af meira en hundrað manns. Hátt í hundrað hafi þá haft stöðu sökunauts.

Í 46 málum hefur skattrannsóknarstjóri komist að þeirri niðurstöðu að stórfelld brot hafi verið framin, og því vísað þeim til héraðssaksóknara. Umrædd brot eru sögð varða við almenn hegningarlög og geta varðað fangelsi til allt að sex ára.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert