Grunaður um annað vopnað rán

Frá vettvangi í Ólafsvík miðvikudaginn 9. nóvember.
Frá vettvangi í Ólafsvík miðvikudaginn 9. nóvember. mbl.is/Alfons Finnsson

Lögreglan á Vesturlandi mun óska eftir því að maður sem setið hefur í gæsluvarðhaldi undanfarna daga vegna ráns í lyfjaverslun í Ólafsvík verði úrskurðaður í farbann. Verið er að rannsaka hvort hann hafi rænt lyfjaverslun í Suðurveri nokkru áður.

Að sögn Ólafs Guðmundssonar, yfirlögregluþjóns á Vesturlandi, er rannsókn málsins að mestu lokið og verður væntanlega gefin út ákæra á hendur manninum á næstu dögum. Ekki þyki ástæða til þess að óska eftir áframhaldandi gæsluvarðhaldi yfir honum þar sem niðurstaða er fengin í málið en gæsluvarðhaldsúrskurðurinn rennur út eftir hádegi í dag.

Maðurinn framdi vopnað rán í Apó­teki Ólafs­vík­ur skömmu fyr­ir klukk­an 18 miðvikudaginn 9. nóvember.  Hann var handtekinn á flótta ásamt konu, á Snæ­fells­nes­vegi skammt frá Haffjarðará stuttu síðar. Konunni var sleppt að lokinni yfirheyrslu. 

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu mun yfirheyra manninn síðar í dag þar sem hann er grunaður um rán í lyfjaverslun í Suðurveri laugardaginn 5. nóvember. Í báðum tilvikum var starfsfólki ógnað með hnífi og lyfjum stolið.

Frétt mbl.is: Par handtekið á flótta eftir rán

Frétt mbl.is: Ræninginn ófundinn

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert