Rok í dag og stórhríð á morgun

mbl.is/Þorkell Þorkelsson

Búast má við að mjög hvasst verði í éljum í dag og getur vindur þá náð allt að 23 m/s eða stormi, en dúri allvel á milli. Frá og með morgundeginum snýst til norðlægrar áttar með kólnandi veðri og ofankomu fyrir norðan og útlit fyrir stórhríð um landið norðanvert á fimmtudag, samkvæmt því sem fram kemur á vef Veðurstofu Íslands.

„Í dag gengur á með hvössu útsynnings skúra- eða éljaveðri, en hægari vindar og úrkomulítið NA-til. Hiti yfirleitt 1 til 6 stig. Sama dag árið 1985 varð mikið tjón í ofsaveðri, ekki síst á höfuðborgarsvæðinu. Bílar fuku út af, bátar og skip slitu festum og þakjárn, jafn vel heilu þökin, fuku út í buskann.

Á morgun snýst síðan í norðanátt með éljagangi eða snjókomu fyrir norðan, en léttir til syðra og kólnar í veðri. Á fimmtudag er spáð norðanstórhríð fyrir norðan og að hríðin fari ekki að ganga niður fyrrr en á sunnudag og mánudag,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Veður á mbl.is

Veðurspá fyrir næstu daga:

Suðvestan 13-20 m/s og skúrir eða slydduél S- og V-til, en 15-23 og éljagangur undir hádegi. Suðvestan 5-10 m/s og bjartviðri N- og A-lands, en 8-15 og stöku skúrir eða él síðdegis. Dregur úr vindi og éljagangi í kvöld og nótt. Snýst í norðan 10-18 með éljum N-til á morgun, hvassast á annesjum, en 8-13 og léttir til syðra. Hvessir heldur nyrst annað kvöld Hiti 0 til 6 stig, hlýjast syðst, en kólnar á morgun.

Á miðvikudag:

Norðan og norðvestan 10-18 m/s og snjókoma eða éljagangur á N-verðu landinu, hvassast á annesjum, en hægara og bjart með köflum syðra. Víða frostlaust við ströndina, en frost annars 0 til 5 stig.

Á fimmtudag:
Norðan 15-23 m/s og snjókoma eða skafrenningur N-til, en úrkomulítið fyrir sunnan. Frost víða 0 til 5 stig.

Á föstudag:
Áfram norðanstórhríð með ofankomu fyrir norðan, jafnvel rigningu við ströndina, en bjartviðri S-lands. Hlýnar dálítið í veðri.

Á laugardag og sunnudag:
Útlit fyrir áframhaldandi norðanátt með éljagangi fyrir norðan, en bjartviðri syðra. Svalt í veðri.

Á mánudag:
Lægir, léttir til og kólnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert