Strandaði á sjávarútveginum

Björt Ólafsdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar.
Björt Ólafsdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar. mbl.is/Styrmir Kári

„Fulltrúar flokkanna á þessum fundum voru reiðubúnir að horfa meira fram á við en við höfum kannski séð áður að mínu mati, en þó voru þarna erfið mál eins og sjávarútvegsmálin þar sem Björt framtíð og Viðreisn hafa lagt ríka áherslu á markaðslausnir. Þetta virðist hafa strandað þar.“

Þetta segir Björt Ólafsdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar og fulltrúi í viðræðunefnd flokksins í stjórnarmyndunarviðræðum við Sjálfstæðisflokkinn og Viðreisn sem nú hefur verið slitið. Hún segir að svo virðist sem bakland Sjálfstæðisflokksins hafi ekki verið tilbúið í þær breytingar sem rætt hafi verið um. Hins vegar hafi verið komin ákveðin lending í landbúnaðarmálum.

„Við vorum að horfa fram á bjartari tíma í landbúnaði á Íslandi, meira frjálsræði og betri stöðu fyrir bæði neytendur og bændur. Það er leitt að það hafi ekki náð fram að ganga,“ segir Björt ennfremur. Evrópumálin voru einnig nefnd sem ásteytingarsteinn í viðræðum flokkanna. Björt segir aðspurð að fyrirfram hafi legið fyrir að flokkanir væru ekki samstiga í þeim efnum.

„Bæði Viðreisn og Björt framtíð lögðu áherslu á að þjóðaratkvæði færi fram um það hvort viðræður um aðild að Evrópusambandinu héldu áfram. En það var kannski ekki búið að lenda því máli almennilega. Þetta var uppi á borðum en síðan sett til hliðar og geymt aðeins. En þegar ljóst var að ekki var að nást lending í sjávarútvegsmálunum var engin þörf á að ræða það eitthvað meira.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert