Viðræðuslitin komu á óvart

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata.
Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, segir  það hafa komið sér nokkuð á óvart að slitnað hafi upp úr stjórnarmyndunarviðræðum Sjálfstæðisflokksins, Bjartrar framtíðar og Viðreisnar.

„Mér sýndist á öllu að það hefði átt að finna einhverja lausn á ESB-málinu, sem mér fannst reyndar dálítið skringileg. En auðvitað kom þetta mér ekki á óvart út af málefnunum. Það er ómögulegt að sjá hvernig þessir þrír flokkar geta unnið saman á þeim grunni,“ segir Birgitta og nefnir sérstaklega landbúnaðarmál, sjávarútvegskerfið og stjórnarskrármálið í því samhengi.

Færumst nær áramótum

Aðspurð telur hún að Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, eigi að skila umboði sínu til stjórnarmyndunar aftur til forseta Íslands. „Hann er búinn að taka sér ansi góðan tíma. Við færumst alltaf nær áramótum og ríkisstjórnin þarf að koma saman. Við þurfum að heyra um aðgerðaáætlun varðandi tíðindin í vestri [kosningu Donalds Trumps] og svo þarf að breyta lögum um kjararáð,“ greinir hún frá.

Margir á vergangi

Einnig nefnir hún að margir nýir þingmenn séu komnir á þing og þurfi að fá vinnuaðstöðu. „Það eru margir á vergangi. Við erum með skrifstofu fyrir þrjá og höfum enga almennilega aðstöðu í þinghúsinu,“ segir hún en þingmönnum Pírata fjölgaði í tíu í síðustu alþingiskosningum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert